Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Qupperneq 21
21
GEST BER AÐ GARÐI
Á ensku hefur hvert erindi kvæðisins sex línur, og byggist hátturinn
almennt á átta áhersluatkvæðum í fimm fyrstu línunum, en fjórum í loka-
línunni. Eru þá tvö rímatkvæði í fyrstu línu hvers erindis sem og þeirri
þriðju, eins og sjá má í fyrsta erindi kvæðisins hér að framan. Greinarhöf-
undar hafa kannað þær íslensku þýðingar kvæðisins sem þeir hafa fundið á
prenti, en þær eru sjö talsins að meðtaldri þeirri þýðingu sem birtist í þessu
hefti. Allir íslensku þýðendurnir skipa hverju erindi í ellefu línur. Rím og
ljóðstafir njóta sín þannig betur fyrir þá sem vanist hafa íslenskum kveðskap
en form og svipmót kvæðisins er vissulega annað en í frumtextanum. Tengsl
frumtexta og þýðingar eru gjarnan metin út frá jafngildi textanna, en það
jafngildi getur verið með ýmsu móti og fer meðal annars eftir því hverskonar
texta um er að ræða og hvaða hlutverkum þeir gegna. Eugene A. Nida setti
á sínum tíma fram kenningar um togstreitu formlegs jafngildis og áhrifa-
jafngildis, en samkvæmt því síðara skiptir mestu máli að laga textann að hinu
nýja viðtökusamhengi til að ná fram áhrifum á borð við þau sem frumtextinn
hefur, þótt það kosti breytingar á formi og bókstaflegri merkingu frumtext-
ans.9 En þegar um ljóð er að ræða getur reynst hæpið að greina á þennan
hátt milli forms og áhrifa.
Rím-mynstur frumkvæðisins er listilega fléttað og gefur kvæðinu sérstaka
hrynjandi og seiðmagn. Ásamt sviðsetningu hrafnsins gæðir það kvæðið í senn
dulúð og nokkrum hrolli. Rím-mynstrið í frumtextanum er svona (skrástrik
merkja línuskil): a a / b c / d d / d c / e c / c. Loka-atkvæðin í annarri, fjórðu,
fimmtu og sjöttu línu í öllum erindum frumkvæðisins ríma saman, ætíð með
sama rímhljóðinu: „-ore“ („lore“, „door“, „floor“, „yore“, o.s.frv.), sem myndar
keðju um allt kvæðið. Í nokkrum tilvikum eru sömu orðin endurtekin, einkum
nafn konunnar, „Lenore“ og orðið „more“, en með því má segja að kvæðið
undirstriki djúpa, jafnvel óviðráðanlega, þrá ljóðmælanda eftir þeirri ástvinu
sem hann hefur misst. Jafnframt hefur Poe þá reglu að enda fjórðu og fimmtu
línu erindis með sama orðinu hverju sinni (door/door, Leonore/Leonore,
osfrv.) og í kjölfar þeirrar endurtekningar kemur „more“ í lokalínunni.
Frávik frá rím-mynstrinu í texta Poes er einungis að finna í öðru erindi
kvæðisins, þar sem a-rímið nær einnig til lokaatkvæðanna í fyrri hluta ann-
arrar ljóðlínu (sbr. hin feitletruðu rímorð):
Ah, distinctly I remember it was in the bleak December;
And each separate dying ember wrought its ghost upon the floor.
9 Sbr. Ástráð Eysteinsson, Tvímæli, bls. 89–91. Byggt á umfjöllun í bók Nida, Toward
a Science of Translating (1964).