Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 22
22
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON
Eagerly I wished the morrow; – vainly I had sought to borrow
From my books surcease of sorrow – sorrow for the lost Lenore –
For the rare and radiant maiden whom the angels name Lenore –
Nameless here for evermore.
Eins og víðar í kvæði Poes sést hér að formið er ekki einungis reglubundið
mynstur heldur hljóðfæri sem býður upp á möguleika og sveigjanleika. Í
þessu erindi er fram haldið þeirri sviðsetningu kvæðisins sem sjá mátti í
upphafserindinu, og hér nýtir Poe sér rímið til að tengja deyjandi aringlóð
(„dying ember“) við tímasetninguna, undir árslok, á miðri og napurri vetr-
artíð („bleak December“), eins og ljóðmælanda rekur greinilega minni til („I
remember“). Ljóðið er merkt endalokum, dauða og vetrarhryssingi, en það
sprettur samt úr minni ljóðmælanda, röddin kemur úr einhverri framtíð,
úr stað sem ætti eiginlega ekki að vera til, samkvæmt því sem hrafninn
segir síðar („nevermore“). Segja má að kvæðið ómi úr óræðu holrými, úr
stað sem er ekki annað en draugalegur endurómur þessarar miðnætur- og
miðsvetrarstofu, og því ekki fráleitt að líta á ljóðmælandann sem einskonar
„ghost upon the floor“, sem með þeim hætti rímar við „Lenore“ og bæði
„evermore“ og „nevermore“. Sé þannig reynt að skyggnast í efnið, sem sam-
ofið er forminu, verður ljóst að það er ekki lítil áskorun að þýða þetta ljóð.
Framangreint erindi hljóðar svona í þýðingu Einars Benediktssonar:10
Þetta var á Ýlisóttu,
aldrei gleymi’ eg þeirri nóttu;
skaust um gólfið skuggi hljótt og
skalf í glæðum arinfeyr.
Birtu þráði’ eg; bætur réði
bók mín engin döpru geði.
Leónóru, lífs míns gleði,
lík til grafar báru þeir.
Hún með englum ljósum lifir,
ljúfa nafnið geyma þeir,
nafn, sem menn ei nefna meir.
10 Þýðing Einars er tekin úr Útsýn, Kaupmannahöfn: Á kostnað bókaverzlunar Gyld-
endals, 1892, bls. 18–25, hér bls. 18–19 (einstaka atriði löguð að nútímastafsetningu).
Í þýðingu Einars er önnur hver lína inndregin, en því er ekki fylgt í tilvitnunum í
þessari grein.