Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 31
31
GEST BER AÐ GARÐI
Þess má geta að í Útsýn er einnig að finna umfjöllun Jóns Stefánssonar
um hina þýddu höfunda og er Poe þar m.a. kynntur með skírskotun til
íslenskra bókmennta og þjóðtrúar:
Ímyndunarafl hans var svo máttugt og magnað og tröllaukið, að hann
tók úr brjósti sjálfs sín allt hið hryllilega og voðalega í draugatrú vorri,
Myrkárdjáknann og Solveigu, sendingar og aðsóknir, gjörninga og
galdra, og skóp úr því í bundinni og óbundinni ræðu. […] Enginn getur
eins vel og hann hleypt hryllingu um mann. Hrafninn (í kvæði hans er
svo nefnist) er ímynd lágnættisins, sem rifjar upp fyrir oss allt það, sem
veldur sárum söknuði og þungum trega, ímynd þess, sem aldrei verður
aptur heimt, sem stendur fyrir hugskotsaugum vorum um svartnættið
eins og bitrar sverðseggjar. Poe er krapta- og ákvæða-skáld ef nokkurt
skáld verður kallað því nafni enda hefur hann ritað, að kraptaverk megi
vinna með heitum orðum og máttugum vilja. Lífið var í augum hans eins
og í augum Kristjáns Jónssonar „logandi und, sem ekki læknast fyr en á
dauðadægri“.24
Í þessari grein gefst ekki rými til að fara yfir túlkunarsögu „Hrafnsins“ og
ekki heldur einstök birt viðbrögð við íslensku þýðingunum. Þau hafa ekki
öll verið lofsamleg. Fyrir ríflega öld birtist í vesturíslenska blaðinu Vínlandi,
sem út kom í Minneota í Minnesota, grein er ber heitið „Ólíkir Hrafnar“
og fjallar um þýðingar Einars Benediktssonar og Matthíasar Jochumssonar
á „Hrafninum“. Þær eru léttvægar fundnar andspænis frumkvæði Poes sem
kallað er „eitt hið mesta snilldarkvæði, sem kveðið hefur verið á enska tungu.
Það var meistarastykki hins andríkasta skálds, sem enn hefir uppi verið með
þjóð þessa lands […].“ Lokaorðin eru að þessar þýðingar séu „aðrir hrafnar
en hrafninn hans Poes.“25 Ekki er auðvelt að segja hverskonar þýðing hefði
komið til móts við hinn kröfuharða vesturíslenska ritdómara. Þeir sem vilja
sjá „sama“ hrafninn í þýðingum, munu aldrei finna hann þar.
24 Jón Stefánsson, „Um höfundana“, Útsýn (sbr. nmgr. 10), bls. 49-52, hér bls. 50-51.
25 „Ólíkir Hrafnar“ (höfundur ótilgreindur), Vínland, III. árg., nr. 3, maí 1904. Þetta er
dæmi um hvernig Poe hefur stundum verið hampað í Bandaríkjunum, en eins og áður
kom fram hafa skoðanir bókmenntafólks þar í landi verið mjög skiptar þegar verk Poes
eru annarsvegar, einkum ljóð hans. Sjá Robert C. Evans, „The Poems of Edgar Allan
Poe: Their Critical Reception“, í Critical Insights. The Poetry of Edgar Allan Poe, ritstj.
Steven Frye, Pasadena, CA og Hackensack, NJ: Salem Press, 2011, bls. 75-91.