Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 34
34
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON
Gunnar velur hinsvegar eir-rímið eins og Einar Benediktsson og viðkvæði
hrafnsins er hið sama hjá honum: „aldrei meir“. Í ljósi þess hve kunn þýðing
Einars er, verður að telja líklegt að Gunnari hafi verið fullljóst að hann fetaði
þarna sömu slóð og þjóðskáldið – hugsanlega hefur hann talið að ekki yrði
betur gert í þessum atriðum.28
Gunnar gerir sér far um að fylgja rím-mynstri frumkvæðisins í hvívetna
og gengur lengst allra þýðenda í því.29 Hann er eini þýðandinn sem alltaf
hefur sama orð í lok áttundu og tíundu línu hvers erindis (sbr. fjórðu og
fimmtu línu í erindum Poes). Einar og Þorsteinn beita einnig þeirri endur-
tekningu en ekki þó í hverju erindi.
Eftirlátin þýðing
Í þessu hefti Ritsins getur að líta sjöundu íslensku þýðinguna á „Hrafninum“
sem birst hefur á prenti, eftir því sem greinarhöfundar fá næst komist. Hún
er eftir Helga Hálfdanarson, einn fremsta þýðanda Íslendinga fyrr og síðar.
Hann lést árið 2009, en fæddist árið 1911 og á þessu ári eru því liðin hundrað
ár frá fæðingu hans. Þýðing Helga á „Hrafninum“ fannst í eftirlátnum ritum
hans og er nú frumbirt í samráði við börn hans.30
Hafa verður þann fyrirvara að frá textanum var ekki gengið til útgáfu af
hálfu þýðandans. En þýðingin ber þess vitni að hér er hagur og listfengur
maður að verki og hún er verk sem mikilvægt er að koma á framfæri, þó að
Helgi kunni að hafa litið svo á að hún væri ekki fullgerð smíð. Þegar Helgi
kom fram á sjónarsviðið sem þýðandi, liðlega fertugur, hafði hann þegar
öðlast afar styrk og listræn tök á íslenskri tungu og jafnframt viðað að sér
þekkingu jafnt á íslenskri ljóðlist allt frá öndverðu sem og erlendum skáld-
skap frá ýmsum löndum og tímaskeiðum. Helgi hefur ekki tímasett þýð-
inguna sjálfur en með því að rýna í handritið má greina að textinn er sleginn
með ritvél sem Helgi hætti að nota ekki síðar en á árinu 1948 (samkvæmt
athugunum Sigurðar, sonar Helga). Það eru því að minnsta kosti sextíuog-
þrjú ár síðan Helgi þýddi kvæðið, en fullvíst má telja að þýðingin hafi orðið
28 Raunar kemur fram í viðtali við Gunnar að hann hafi vitað af þýðingu Einars Benedikts-
sonar. „Finn líkingar við mannlífið í náttúrunni“ [viðtal við Gunnar Gunnlaugsson í
tilefni af útkomu ljóðabókar hans Flýgur yfir bjarg], Morgunblaðið, 23. nóvember 1986.
29 Gunnar er eiginlega enn reglusamari en Poe, því að hann fylgir ekki fráviki hans í
öðru erindi, sem minnst hefur verið á.
30 Þeim Hálfdani, Ingibjörgu og Sigurði Helgabörnum eru hér með færðar alúðarþakk-
ir fyrir greiðasemi og góðar samræður um ritstörf föður þeirra. Greinarhöfundar
bjuggu þýðinguna til prentunar í samráði við þau.