Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 39
39
GEST BER AÐ GARÐI
leyfi; hjá Helga steigurlátur, stoltur og forneskjulegur; hjá Gunnari forn og
þeygi kurteis. Matthías sneiðir hinsvegar bæði hjá forneskjubrag og virðuleika
hrafnsins og virðist ekki telja það forgangsatriði að halda í þessar eigindir
frumtextans. Hann þýðir þessar línur svona:
Innsta gluggann opna’ ég skjótur,
en hvað sé ég? Nauðaljótur
hrafn í salinn flygsast fljótur,
fítonslega við mér hló.
Matthías var góður enskumaður og ólíklegt er að hann sé hér að þýða stately
sem nauðaljótur. Hann hefur ákveðið að sleppa þessu einkunnarorði Poes
og setja í staðinn orð sem mætir kröfum rímsins. Þetta orð breytir vitaskuld
mynd okkar af hrafninum. En Matthías rær ekki einn á báti, því að hrafninn
er líka nauðaljótur í þýðingu Skugga, sem hér hefur greinilega kosið að fylgja
texta frænda síns, enda með sömu rímorð í fyrstu þremur línunum. Hann
lætur hrafninn þó ekki hlæja fítonslega, eins og Matthías gerir, sem virðist
færa dýrið enn lengra frá hinni þóttalegu fyrirmannshegðun sem einkennir
það hjá Poe. Síðar í kvæðinu „æpir“ hrafninn ítrekað það sem Matthías kallar
Urðar-orðið“, semsé áðurnefnt „Aldrei – kró!“34 Það er ekki síst í lýsingu
hrafnsins og upphrópun hans sem veikleikar birtast í texta Matthíasar og
verður þýðingin seint talin til meginverka þessa skálds sem annars afrekaði
margt á vettvangi þýðinga.
Ljóðmælanda hryllir við hjá Skugga, þótt ekkert segi beinlínis um það
í þessu erindi frumtextans, en þetta er í samræmi við þá almennu viðleitni
Skugga að skerpa enn frekar áherslu Poes á hrollinn sem fylgir reynslu ljóð-
mælandans. Í öðrum erindum hjá Skugga má lesa um „kynjahroll“, „dauðans
heljarkló“, „napurkalda norna skugga“ og um „ofboð“, „geig“, „ógnir“ og
„angist“ sem „trylla“, „fylla“ og „hrylla“.
Hrafninn kemur inn um gluggann með nokkrum fyrirgangi, „with many
a flirt and flutter“ (þ.e.a.s. með rykkjum og blaki). Hann flygsast í þýðingu
Matthíasar, flugsast hjá Skugga, hann ryðst í miklum flýti inn hjá Gunnari og
vængir flaksast. Hjá Sigurjóni og Skugga flýgur hann inn og hrafn Þorsteins
flaug inn og buxum kippti. Þetta orðalag (að kippa buxum), sem haft er um
hrafna sem flögra um í sífellu, er hér notað skemmtilega og af hugkvæmni
34 „Aldrei – kró“ er nefnt „Urðar-orðið“ í bæði 11. og 18. erindi í þýðingu Matthíasar,
sem þar með tengir hrafninn við skapanornina Urði í norrænni goðafræði. Má segja að
með Urði séu dregin fram tengslin við forna tíð sem Matthías sleppir í 7. erindinu.