Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 41
41
GEST BER AÐ GARÐI
Eg opnaði hurð af hörkumætti.
Hrafn flaug inn um dyragætti,
þögull, fór að húmsins hætti;
hjástoð fann og nam sér stað.
Stærilæti hrafnsins birtist hjá Sigurjóni í því að þrísagt er í erindinu að hann
hafi tekið sér ríki á styttu og í vistarveru ljóðmælanda. Er það orðalag nokkuð
viðeigandi og endurtekningin í anda frumkvæðisins.
Kennimark hrafnsins í fjórðu línu: „of the saintly days of yore“, leiða
flestir þýðendur hjá sér, en ekki þessir þrír: Einar: aldinn hrafn; Gunnar:
hrafn einn forn og Helgi: Forneskjunnar feikn í sjónum. Helgi heldur þannig
skýrast til haga tengslum hrafnsins við þau forneskjufræði sem ljóðmælandi
fæst við í upphafi kvæðisins. Það er sem dýrið komi úr heimi þeim sem hinn
dapri mælandi hafði reynt að skyggnast í, og nú stígi það inn í raunheim
hans, færandi með sér vémögn sem mælandinn óttast og þráir í senn.
Orðaval þýðendanna og línuskipan er skiljanlega víða háð leitinni að rími
og ljóðstöfum. En sú leit snýst ekki einungis um að finna stök orð, sem
iðulega standa á áherslustað, heldur vinna þýðendur hverju sinni með það
rými sem skapast innan merkingarþátta ljóðsins: til verður samfellt orðalag
eða myndmál og þá má spyrja hvernig það tengist formgerð og merkingu
ljóðsins í heild. Ljóðstafir leiða til þess að hrafninn er bæði „þrjóskufullur“ og
„þóttalegur“ hjá Helga, sem þar með hnykkir á þessum persónueinkennum
fuglsins. Matthías bregður stundum á það ráð að fyrna mál sitt, og hér krækir
hann sér í ljóðstaf með orðinu vomur (draugur, ófreskja) – og færa má rök
fyrir því að kvæði Poes sé ekki laust við „draugagang“, eins og þegar hefur
verið drepið á. „Hilluna til hægri handar“ finnur hrafninn ekki í kvæði Poes
en Matthías finnur sér ljóðstafi með þessari viðbót:
Engar kveðjur vomur vandar,
vængjum þungt og hljótt hann bandar,
dyrnar við til hægri handar
hillu fann og sezt í ró;
Í sama tilgangi grípur Matthías til fágætra orða við þýðingu á 9. og 10. línu
í þessu erindi, en þar notar hann lýsingarorðið maskinn (rogginn): „þar stóð
mynd af menntagyðju, / maskinn hana spennir kló.“
Pallas-styttan í kvæði Poes er auðvitað gyðjan Pallas Aþena, sem Matthías
nefnir hér menntagyðju, og það gerir Skuggi líka, en hún nefnist viskugyðja