Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 45
45
GEST BER AÐ GARÐI
hann hafi nýtt sér það rými sem ávannst fyrir vikið, því að könnun annarra
þýðinga sýnir þann vanda sem menn lenda í við að þræða leiðarrímið. Þótt
„aldrei meir“ sé vel ásættanlegt „viðlag“ í þýðingum Einars og Gunnars,
verður eir-hljóðið þeim fjötur um fót. Oftar en einu sinni nota þeir „Heyr“
sem upphrópun, sem er augljóst neyðarbrauð; auk þess veldur það hökti á
mörkum ljóðlína.36
Rímhljóðið að skapar þýðendum sennilega flesta kosti, svo sem fyrr
segir, og þá nýtir Þorsteinn frá Hamri sér oft vel, stundum með því að ríma
með orðum sem ekki hafa dramatískan þunga, t.d. fornafninu „það“ eða
forsetningunni „að“. Sennilegt verður að telja að Þorsteinn hafi beinlínis í
hyggju að draga þannig úr mætti leiðarrímsins. Jafnframt nær hann iðulega
að skapa styrka tengingu og samspil málgreina og ljóðlína, þótt hvergi sé
slegið af formrænum kröfum ríms og ljóðstafa. Svona er þrettánda erindið
hjá Þorsteini:
Andann ég til átaks neyddi,
eingra svara frekar beiddi
fuglinn þann er funasjónir
festi á mínum hjartastað.
Nístur vandamáli mínu
– máli að sinni harla brýnu –
hægindisins hlýju dýnu
höfuð mitt ég lagði að,
hægindis sem höfði sínu
hana sá ég þrýsta að;
aldrei síðar – sé ég það!
Sá ljóðræni styrkur sem einkennir þýðingu Þorsteins byggist annarsvegar
á áreynslulausri framvindu textans en hinsvegar á myndríku orðalagi sem
varðar leiðina og reynist, þegar að er gáð, fela í sér túlkun þýðandans á hugar-
heimi frumkvæðisins fremur en að það eigi sér ævinlega beinar fyrirmyndir
í orðum þess. Hér mætti nefna orð eins og „alkyrrð“, „hryggðarvíma“,
„stormsins andvarp“, „óráðsdraumar“, „kyrrðarþúngi“ og „ángurkvæði“.
Þótt Helgi Hálfdanarson kjósi að nota ekki samfellt leiðarrím, þýðir það
ekki að formræn samfella kvæðisins hverfi í þýðingu hans. Hann vinnur með
meginrím í hverju erindi fyrir sig (í línum 4, 8, 10 og 11), en rímmynstrið er
36 Heimir Pálsson og Höskuldur Þráinsson finna að upphrópuninni „Heyr“ hjá Einari
í bók sinni Um þýðingar, Reykjavík: Iðunn, 1988, bls. 116.