Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 48
48
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON
þannig að t.d. Niflheimur og Glámur fá hlutdeild í dularvídd „Hrafnsins“ í
þýðingu hans. Hinn orðhagi þýðandi nýtir orð af víðu sviði, jafnt úr nútíma-
máli sem eldri bókmenntum og skapar ný orð og nýjar samsetningar orða
af góðri leikni og einnig heiti og kenningar. Slíkur orðabúskapur setur að
sjálfsögðu sterkan svip á kvæði eins og það sem hér um ræðir. Meðal nýmæla
í orðfæri – í þessari þýðingu Helga – má nefna: fyrnskufræði, svikavon, brúna-
logi, lokkahlýr, fólginspjalla forað, huliðsheima helgimagn, brúna-gneisti, heiftar-
norna fjötur. Mynd okkar af hrafninum mótast líka af þessari frjósemi í mál-
veröld Helga. Hrafninn er nefndur bæði fugl og krummi, m.a. „krummi
blár“, en hann fær einnig ýmis heiti og jafnvel kenningar (sumar kunnar úr
fornu máli): Glámur forni, hræfugl, váhrafn, benmár, hrævamár, undagjóður.37
Í þýðingu sinni fylgir Helgi frumtextanum í ýmsum meginatriðum en
hann fer líka sínar eigin leiðir í þeim orðheimi sem sprettur af fundi þýð-
anda og frumkvæðis, orðheimi sem er sannarlega andríkur, svipmikill og
hljómsterkur.
Fjöltyngi
Hér að framan var vísað til orða Walters Benjamins um það hvernig verk öðl-
ast framhaldslíf í þýðingum. „Hrafninn“ eftir Edgar Allan Poe er til í fjölda
þýðinga á mörgum tungumálum. Sum fremstu ljóðskáld Evrópu hafa þýtt
„Hrafninn“; Nezval á tékknesku, Pessoa á portúgölsku, Mallarmé á frönsku
– raunar einnig Baudelaire á frönsku, en það er prósaþýðing. Á þýsku er til
þýðing á „Hrafninum“ eftir hinn kunna Joyce-þýðanda Hans Wollschläger.
Og þannig mætti áfram telja. Fernando Pessoa sagðist á sínum tíma sjá mikla
áskorun í að þýða ljóð Poes og því hefur verið haldið fram að þýðingar Pessoa
á „Hrafninum“ og fleiri ljóðum Poes hafi verið mikilvægar í endurmati þessa
lykilskálds á stöðu portúgalskrar ljóðlistar á þriðja áratug síðustu aldar.38
En „Hrafninn“ hefur ekki aðeins verið þýddur á mörg mál, heldur eru til
margar þýðingar á kvæðinu á einstökum tungumálum. Lenka Pánková hefur
í grein bent á að sumar þeirra tuttugu tékknesku þýðinga á „Hrafninum“
sem birtust á árunum 1869 til 1964 hafi vakið mikla umræðu um grund-
vallaratriði í tékkneskum skáldskap og þýðingum, og hún telur jafnframt að
það sé í samsafni og margbreytileika allra þessara þýðinga sem „Hrafninn“
37 Í þessari kenningu eru tengd saman orðið „und“ (sár) og fuglstegundin „gjóður“.
38 Margarida Vale de Gato, „Poetics and Ideology in Fernando Pessoa’s Translations of
Edgar Allan Poe“, Edgar Allan Poe Review, 11. árg., 1. hefti, 2010, bls. 121-130.