Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 49
49
GEST BER AÐ GARÐI
komist raunverulega til skila á hinu nýja máli (án þess að það safn verði
nokkurn tíma lokuð eða endanleg heild).39
Það má ef til vill teljast viss mælikvarði á gildi og mikilvægi erlends
skáldverks að talin er ástæða til að þýða það oftar en einu sinni eða tvisvar á
annað mál, og jafnvel margoft. En mælikvarðinn getur einnig falist í þeim
margbreytileika verksins sem birtist í hinum ýmsu og ólíku þýðingum. Í
umræðu okkar hér að framan er nokkuð um gagnrýnar athugasemdir um
einstakar íslenskar þýðingar á „Hrafninum“. En einhver kynni t.d. að verja
orðaval og áherslur í þýðingu Skugga með tilvísun til þess hrollvekjuþáttar
sem er í reynd fyrir í texta Poes og þýðandi hafi fullan rétt til að skerpa á (rétt
eins og þeir myndasöguhöfundar sem fengist hafa við „Hrafninn“). Eins má
segja að kvæðið verði Sigurjóni Friðjónssyni áskorun til að ganga enn lengra
en Poe í að skapa samfellda rímkviðu, og þótt það kalli á vissa „undirokun“
inntaksins, skapi það athyglisverða vídd í lífi kvæðisins á íslensku. Á hinn
bóginn er einnig athyglisvert hvaða áhrif það getur haft að slá af vissum
formáherslum og skal þá aftur vísað til þess hvernig Þorsteinn frá Hamri
dregur úr mætti bæði leiðarrímsins og viðlagsins – sem Poe kallaði „refrain“
(þ.e. „nevermore“) og lýsti sem algerlega miðlægum þætti í ljóðinu.40 Helgi
Hálfdanarson gengur enn lengra og beitir ekki leiðarrími í kvæðinu. En
þessi ráðstöfun skapar þeim svigrúm og fyrir vikið eru þýðingar þeirra Þor-
steins og Helga í reynd heilsteyptari kvæði en aðrar þýðingar sem birst hafa,
án þess að dregið sé úr margvíslegu gildi þeirra.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Fleiri eiga vafalaust eftir að þýða
„Hrafninn“ og þeirra bíða áhugaverðar spurningar. Er hægt að þýða þetta
kvæði svo vel sé án þess að styðjast við hið þaulunna rím-mynstur sem til
umræðu var fyrr í þessari grein? Þrífst verkið án þess, og jafnvel í gerólíku
formi? Við fáum aldrei sama „Hrafninn“ en hvenær hættum við að bera
kennsl á tegundina.
39 Lenka Pánková, „The For-Ever Reverberating ‘Never More’: What Do “The
Raven’s” Multiple Translations into Czech Signify for Translation Theory?”, Edgar
Allan Poe Review, 5. árg., 1. hefti, 2004, bls. 100-108.
40 Sjá Edgar Allan Poe, „The Philosophy of Composition“ (sbr. nmgr. 12), bls. 484-485.