Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 55
55
ÉG GET EKKERT SAGT
Ég er vanhæfur. Ég er vanhæf.
Ég er föðurbróðir. Ég er móðursystir.
Ég get ekkert sagt.
Ég er bróðir. Ég er systir.
Ég er sonur. Ég er dóttir.
Ég er frændi. Ég er frænka.
Ég er systursonur, systurdóttir
bróðursonur, bróðurdóttir
tengdasonur, tengdadóttir
tengdapabbi, tengdamamma.
Ég er vanhæfur. Ég er vanhæf.
Ég get ekkert sagt. (39)
Þegar ég las þetta ljóð fyrst – upphátt heima hjá mér – gekk það mér í merg
og bein og í lokin hló ég, allt að því taugaveikluðum hlátri. Eða með öðrum
orðum: um leið og húmor mínum var dillað, gripu mig ónot. Hvernig er
hægt að hafa slík áhrif á aðra með texta, sem er nærri því banall í einfaldleika
sínum og þar sem nýjungin – sem gjarna er talin megineinkenni góðs skáld-
skapar – virðist víðsfjarri?
Með aðferðum stílfræðinnar má benda á ákveðin atriði sem kunna að
skýra áhrifamátt ljóðsins. Segja má t.d. að rammaklifun setninganna „Ég
get ekkert sagt“ og „Ég er vanhæfur. Ég er vanhæf“ dragi fram hömlur og
takmarkanir fámennissamfélagsins en þéttleikinn og hraðinn sem kemur til
sögu með ótengdu frændsemis-/venslaorðunum miðli óþoli og veki þannig
athygli á stöðu þess sem sífellt þarf að taka tillit til skyldleika og vensla.
En hvernig á að skýra þær blendnu geðshræringar sem ljóðið vakti í upp-
hafi með mér? Einfaldast er sennilega að vísa til þess að hreyfiskyn mitt hafi
ekki aðeins meðtekið endurtekningarnar allar í hrynjandinni4 meðan ég las
4 Ég nefni hér sérstaklega hreyfiskynið af því að menn gera nú ráð fyrir að það skipti
meira máli í skilningi mannsins en fyrr var talið. – Gagnleg grein sem kemur inn
á hve margbreytileg skynjun tengist lestri ljóða er t.d. G. Gabrielle Starr, „Multi-
sensory Imagery“, Introduction to Cognitive Cultural Studies, ritstj. Lisa Zunshine,
Baltimore: The Johns Hopkins University Press, 2010, bls. 275–291. Með hliðsjón
af upplestri ljóða er einnig vert að nefna sérstaklega uppgötvun hreyfitaugafruma,
svokallaðra spegilfruma (e. mirror neurons) í öpum, og fruma með sambærilegt hlut-
verk í mönnum. Uppgötvunin hefur – ásamt rannsóknum taugafræðingsins Antonios
R. Damasio – breytt hugmyndum um hlut hreyfiskyns í skilningi mannsins á at-