Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 63
63
ÉG GET EKKERT SAGT
alda og telur síst eftir sér að skapa mýtur um ýmsa kollega þeirra í samtím-
anum. En af því hve íslensk orð eru gjarna gagnsæ mætti líka taka mið af
að orðið hryðjuverkamaður er stofnskylt sögninni „hrjóða“ sem merkir ,að
ryðja burt‘ – og tengja það samtímahugmyndum um hryðjuverkamenn og
sprengjur. Þá getur ljóðið kveikt nöturlega fyndna mynd: Fyrir augum rís
samfélag sem vill ekki sjá ljóðskáld sem ,ryður burt‘ eða bara sprengir í loft
upp – segjum smámuni eins og vanahugsun, fordóma og mýtur; samfélag
sem tignar óspart langdauð ljóðskáld meðan þau sem lifa geta frekast vænst
frægðar af símaskránni.20
Hvers konar samfélag eða samlíf manna viljum við? Það er ein af spurn-
ingunum sem ljóð Antons Helga vekja og þá ekki bara með húmor eða
íróníu heldur á ýmsan hátt annan, t.d. með því að lýsa – eða láta vera að lýsa
– hugsunum og kenndum, sem verða eins og dæmigerðar fyrir ýmislegt sem
maður þykist skynja í samtímanum, t.d. skort á umburðarlyndi, grimmd og
jafnvel tilhneigingu til fasisma sem virðist grunnt niðrá hjá ýmsum hérlendis
síðustu ár.21 Til vitnis um það má hafa ljóð sem hefst svo:
20 Ég gerði óformlega könnun í fámennum hópi nemenda minna – og meðal fáeinna
félaga minna – þar sem ég bað menn fyrst að skrifa niður hvaða merkingu þeir legðu í
orðið hryðjuverkamaður eitt og stakt; las því næst ljóð Antons Helga einu sinni fyrir þá
og bað þá skrifa niður hvernig þeir skildu orðið þar; loks bað ég þá um að taka ljóðið
með sér heim, lesa það mjög vel og gera því næst skriflega grein fyrir skilningi sínum
á merkingu orðsins í því. Könnunin dró bæði fram sameiginleg og ólík atriði í skiln-
ingsferli manna og vitnaði ekki síst um hve brýnt er að gerðar séu ærlegar rannsóknir
á lestri bókmennta. Meðal skemmtilegra niðurstaðna voru að þeir sem hugsuðu um
skyldleika orðsins hryðjuverk við önnur orð, tengdu það ýmist sögninni hrjóða og
fornum sögum – þar sem menn í vígaham hrjóða t.d. skip – eða orðinu hroði og lýstu
geðhrifum í tengslum við það.
21 Hér nægir að vísa í viðbrögð ýmissa stjórnmálamanna við ákvörðun um að taka á móti
flóttamönnum úr Al-Waleed flóttamannabúðunum og hugmyndir – í tengslum við
nýlegt tóbaksvarnafrumvarp – um að ekki sé vert að hið opinbera styrki kvikmyndir
og leikrit þar sem persónur reykja. Sjá Magnús Þór Hafsteinsson, „Að gefnu tilefni,
Minnisblað vegna flóttafólks, Minnisblað til meirihluta bæjarstjórnar Akraness, Lagt
fram á meirihlutafundi 8. maí 2008“: http://magnusthor.eyjan.is/2008/05/gefnu-til-
efni-minnisbla-vegna-flttaflks.html [sótt 19.08.11]; Sigurjón Þórðarson, „Er inn-
flutningur flóttafólks liður í kosningabaráttu utanríkisráðherra“: http://sigurjonth.
blog.is/blog/sigurjonth/entry/536304/ [sótt 19.08.11]; Jón Magnússon, „Flóttafólk
og stefna Frjálslynda flokksins“: http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/
entry/552337/ [sótt 19.08.11]; „Hugmyndir um reykingabann skerða listrænt frelsi“,
Vísir 30. maí 2011: http://sigurjonth.blog.is/blog/sigurjonth/entry/536304/ [sótt
19.08.11]; „Tóbaksvarnartillaga, „Gáfulegra að spúa reyk en svona bulli““: http://
eyjan.is/2011/06/02/tobaksvarnartillaga-gafulegra-ad-spua-reyk-en-svona-bulli/ [sótt
19.08.11].