Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 68
68
GUÐNI ELÍSSON
svipnum upp andspænis pólitískum kröfum samtímans, ekki sem ,vofu
kommúnismans‘ eins og hún birtist í upphafsorðum Kommúnistaávarps Marx
og Engels, heldur í nafni sjálfræðis, „til að halda í einhvers konar undur sem
ekki sé hægt að einfalda í marxíska kennisetningu eða sálgreiningu“. Og
hann bætir við: „Markmið súrrealismans er að kalla fram vofur alls staðar“.4
Svipnum er ætlað að vekja upp spurningar um hefðbundin mörk sjálfsver-
unnar og þá sundrungu sem hún finnur fyrir, reyni hún að brjótast undan
hugmyndafræðinni. Svipurinn vekur þann sem stendur andspænis honum
af svefni vanans og þótt hann eigi sér ekki alltaf undursamlegar skýringar
upplifum við þversagnakenndar geðshræringar við að sjá hann og þær verða
illa skýrðar með kenningum. Kendall Johnson hefur sérstakan áhuga á því
hvernig Breton (og reyndar Bataille líka) notfærir sér ,svipi‘ úr umhverfinu
til þess að draga úr öryggiskennd einstaklingsins:
Hlutir sem valdir hafa verið af handahófi úr hversdagsheiminum,
hlutir sem menn sjá á ruslahaugnum eða kaffihúsinu, eru ekki lengur
hluti af fastmótaðri sjálfsvitund okkar, heldur vekja með okkur skilning
á einhverju nýju og ógnvænlegu. Sú „krampakennda fegurð“ sem þeir
draga fram, frelsar einstaklinginn úr fjötrum hins vanabundna […]5
Johnson segir svipi eða vofur Bretons hrifsa einstaklinginn burt úr niður-
njörvuðum flokkunarkerfum. Hann verði ófyrirsjáanleg afleiðing tímans
sem hann tilheyri, viðfang tiltekins andartaks, á ráfi um flóamarkaði.6
4 Michel Carrouges, André Breton and the Basic Concepts of Surrealism, þýð. Maura
Prendergast, Tuscaloosa, AL: University of Alabama Press, 1974 [1950], bls. 35.
5 Kendall Johnson, „Haunting Transcendence: The Strategy of Ghosts in Bataille and
Breton“, Twentieth Century Literature, haust 1999, 45. árg., 3. hefti, bls. 349.
6 Þá fagurfræðilegu aðferð að leysa lesandann úr fjötrum hins vanabundna má finna
víða í vestrænum kenningum um skáldskaparlist. Þar nægir að nefna hugmyndir ensku
skáldbræðranna Williams Wordsworth og Samuels Taylor Coleridge sem settu sér
báðir það markmið að vekja lesandann til vitundar um tilfinningar sínar með því
að sýna raunveruleikann í óvenjulegu ljósi, en slík framandgerving (e. estrangement,
defamiliarization; rúss. ostranenije), eða tilraun til þess að rjúfa vélrænu hversdags-
lífsins, er grundvallareinkenni í skáldskap að mati rússneska formalistans Viktors
Shklovskíj. Sjá: Samuel Taylor Coleridge, sérstaklega 14. kafla Biographia Literaria
2. bindi, ritstj. James Engell og W. Jackson Bate, Princeton: Princeton University
Press, 1984, bls. 5–7; Viktor Shklovskíj, „Listin sem tækni“, Árni Bergmann þýddi,
Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Frá Shklovskíj til Foucault, ritstj. Garðar Baldvinsson,
Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Há-
skóla Íslands, 1991, bls. 21–42, hér sérstaklega bls. 28–29.