Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 73
73
VIÐ YSTA MYRKUR
mælistika hins venjubundna og staðlaða, er uppspretta „krampakenndrar
fegurðar“ í meðförum Sjóns. Skilaboðin eru þau að jafnvel flokkunarreglur
tímatalsins geti með góðum brotavilja orðið að varhugaverðu svæði öllum
þeim sem ekki vilja láta koma sér á óvart. Upplifun almanaksins verður að
ofurpersónulegri og frjórri athöfn í súrrealískri skáldskaparfræði.
Hér skipta rætur reynslunnar öllu máli. Hvaðan sprettur skilningur okkar
á tilverunni? Einangrun Reykvíkingsins stafar ekki síst af því að hann getur
ómögulega miðlað upplifun sinni eða deilt henni með öðrum, jafnvel þegar
hann lýsir hversdagslegu flokkunarkerfi, höfuðklisjum sem allir ganga að
sem vísum. Hér hefur röngunni í raun verið snúið út, því að kennimerki hins
félagslega samþykkta skilnings eru gerð að ofsóknarkenndum hugmyndum
sem enginn vill þurfa að sitja undir.16 Leiðin út úr þessum ógöngum er að
skapa vitund þar sem „einstaklingurinn lýsir sjálfum sér sem hreinni sjálfs-
veru um leið og hann verður (og í þessu býr ekki þversögn) að hreinni
atorku sem skilgreinir sjálfa sig í athöfnum sínum“17 og heiminn með hjálp
orðkynnginnar.
Hugmyndina um að hverfa inn í sjálfan sig og umbreytast í merkingar-
þrunginn kraft má glögglega sjá í ljóðinu „finnagaldri“. Lífssláttur innyfl-
anna vekur með lesandanum nýjan skilning í frumlegri líffærafræðilegri
sundurgreiningu iðra, beina og brjósks, og eintal sjálfsverunnar verður að
bókstaflegu inntali, svo vitnað sé í ljóðið:
spilverk
af holdi og blóði
spiladósir
úr beinum og brjóski
og fara skref fyrir skref og
skref fyrir skref
og fara skref fyrir skref og
skref fyrir skref
gegnum þrívíðan keðjusönginn
meðan iðrin á inntali
16 Dæmi um þetta allt má finna í bók Jacqueline Chénieux-Gendron, Surrealism, bls. 112.
17 Jacqueline Chénieux-Gendron, Surrealism, bls. 112. Kendall Johnson beindi athygli
minni að þessari tilvitnun (sjá bls. 349), en segir ranglega að hana sé að finna á bls. 90
í bók Chénieux-Gendron.