Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Qupperneq 77
77
VIÐ YSTA MYRKUR
Sjóns í myrkum fígúrum. Fórnargjafirnar tuttugu og tvær eru minnislisti
dauðans og lesanda þykir líklega ekki ráðlegt að styggja þau reginöfl sem
veita slíkum gjöfum viðtöku.
Skírskotanirnar í „þrettándagöngu“ liggja að sama skapi víða. Þar virðist
Sjón í fljótu bragði snúa kaþólskri helgisagnaritun á haus með nýstárlegu
og grótesku dýrlingatali sínu, en í upptalningu hinna helgu votta má merkja
ákall eða kristilega særingu (eða öfugsnúna bæn), a.m.k. koma dýrlingarnir
„í halarófu“ niður götu ljóðmælandans eftir að hafa verið nefndir, leiddir
áfram af „frú vorrar brottfarar og herra vors vilja“. Þessir sjálfboðaliðar
„fyrir kirkju hinna nöguðu handarbaka“, trúboðar brostinna vona og glat-
aðra tækifæra eru verndardýrlingar ólíkra brottfararleiða, og alltaf bætast
nýir í hópinn. Nokkrir fulltrúar þrettándagöngunnar eru:
heilagur jóhannes verndari rakblaðsins
heilög anna hengingarinnar
heilagur stefán af haglabyssu
heilög margrét dauðaskammtsins
heilagur ólafur plastpokans
heilög katrín verndari gasofnanna
heilagur vilhjálmur af gluggasyllu
heilög teresa útblástursröranna27
En er þessi endalokalisti í raun svo öfugsnúinn? Er hann eins róttæk endur-
ritun hins venjubundna og í fyrstu mætti ætla? Er hann settur til höfuðs
kaþólskri heimsmynd, forgangsröðun og úrvali? Hvað eiga vanhelgandi
verndarar rakblaðsins, haglabyssunnar, plastpokans, gluggasyllunnar og út-
blástursröranna sammerkt með háleitum dýrlingum kaþólskra messudaga,
dýrlingum á borð við meypíslarvottana Agnesi, Katrínu og Margréti, eða
karlana Vítus og Stefán frumvott?28
Hversu langt gengur Sjón í helgimyndabroti sínu? Er listinn kannski
ekkert brot? Er hann kannski fyrst og fremst árétting hins sama, hins
venjubundna — einföld uppfærsla píslartóla, þar sem bálkestinum, kross-
inum, töngunum, grjótinu og öðrum gamalkunnum miðlunartækjum upp-
27 Sjón, „þrettándaganga“, myrkar fígúrur, bls. 26.
28 Um dýrlingana og píslarvætti þeirra má lesa í Heilagra meyja sögum, Kirsten Wolf bjó
til prentunar, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2003; og Heilagra
karla sögum, Sverrir Tómasson, Bragi Halldórsson og Einar Sigurbjörnsson bjuggu
til prentunar, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2007.