Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 79
79
VIÐ YSTA MYRKUR
á að gefa til kynna líkurnar á alls kyns alvarlegum atburðum sem stofnað
geti framtíð jarðarbúa í hættu.36 Á árinu 2007 var dómsdagsklukkan færð
fram um tvær mínútur, svo hana vantaði aðeins fimm mínútur í tólf,37 en
nú stendur hún í sex mínútum.38 En hvers vegna skyldi Sjón þá hafa stillt
sína dómsdagsklukku af jafn mikilli hófstillingu – a.m.k. í samanburði við
vísindamennina? Skýringuna er líklega að finna í menningarlegri skírskotun
tölunnar tuttugu og þrír, en hún hefur ýmis konar neikvæða eiginleika sem
tengdir hafa verið endalokum, eyðileggingu og óhamingju.39 Hér sem fyrr er
þó vænlegast að taka tímasetninguna ekki of hátíðlega, merkingu tölunnar í
samtímamenningu er ómögulegt að binda á einhlítan hátt í kerfi.
Ljóðmælandinn í „þrettándagöngu“ á von á gestum, en bækur Sjóns
fjalla öðrum þræði um þá myrku vætti sem vaktir eru upp og stíga fram á
síðunum. Káputexti myrkra fígúra fangar viðfangsefnið glögglega, yfirþyrm-
andi ugg og ótta, og þörfina fyrir að líta framhjá aðsteðjandi hættum í
lengstu lög. Heimur Sjóns er öðrum þræði heimur afneitunar en hún er
jafnframt miðlægt minni í hryllingsbókum, þar sem fall söguhetja verður
36 Vefútgáfu Bulletin of the Atomic Scientists má finna hér: http://www.thebulletin.org/
[sótt 11. febrúar 2011].
37 Sjá nánar Molly Bentley, „Climate resets ‘Doomsday Clock’“, 17. janúar 2007:
http://news.bbc.co.uk/2/hi/6270871.stm [sótt 10. febrúar 2011].
38 Ég ræði tengsl ljóða Sjóns við umhverfisverndarumræðuna í „Eftirmáli að lestrar-
bók handa nemendum í sextíuogátta ára bekk. Eða: Aðferð til þess að koma ekki of
mikilli reglu á hlutina“. Sjón. Ljóðasafn 1978–2008, Reykjavík: Bjartur, 2008, bls.
347–372, sjá hér sérstaklega bls. 358–360.
39 Algengasti skilningur sem lagður er í merkingu tölunnar tengist „23-koma-sér-fras-
anum“ (e. 23 skidoo), en slanguryrðið var algengt á fyrsta fjórðungi liðinnar aldar
og verður líklega best fangað með íslenska orðtakinu „hætta skal leik þá hæst hann
ber“ (e. „it’s time to leave while the getting is good“). Þaðan hefur talan ratað inn
í goðsagnaheim fjöldamenningarinnar, m.a. með hjálp Williams S. Burroughs, sem
skrifaði um töluna og merkingu hennar, en dulhyggjupredikarinn Robert Anton
Wilson tekur síðan upp hugmyndir Burroughs í samsærisþríleiknum Illuminatus
(The Eye in the Pyramid, The Golden Apple og Leviathan, 1975) sem hann skrifaði með
Robert Shea. Hjá Wilson og Shea stendur talan fyrir eyðingu og óhamingju auk þess
sem hún er lykillinn að leynireglu hinna upplýstu. Að lokum má nefna kvikmyndina
The Number 23 (2007) sem leikstýrt er af Joel Schumacher, en þar er vísað í tengsl
tölunnar við ýmis konar launhelgar. Sjá: Mark Benecke, „The Numerology of 23“,
Skeptical Inquirer, maí/júní 2011, árg. 35, hefti. 3, bls. 49–53: http://wiki.benecke.com/
index.php?title=2011–05_Skeptical_Inquirer:_The_Numerology_of_23; Robert Ant-
on Wilson, „The 23 Phenomenon“, ForteanTimes. The World of Strange Phenomena:
http://www.forteantimes.com/features/commentary/396/the_23_phenomenon.html
[allt sótt 23. júní 2011].