Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 83
83
VIÐ YSTA MYRKUR
(rauður) og borgara (blár), eða upphafin þjóðleg eigindi á borð við sann-
leiksást, árvekni og tryggð (blár), þrautseigju, hugrekki og styrk (rautt), og
friðsæld, hreinleika og hreinskilni (hvítt). Táknkerfi íslenska fánans er sótt í
náttúruna — í eld, ís og bláan himin ættjarðarhyggjunnar — en niðurstaðan
er sú sama. Litir beggja fána standa fyrir ákjósanleg og eftirsóknarverð eig-
indi lands og þjóðar.
Þessum háleitu táknmyndum hefur verið snúið á haus í ljóði Sjóns, þeim
hefur verið skipt út af gróteskara táknkerfi mars, sæðis og tíðablóðs. En þó
er sem fyrr önnur og hefðbundnari merkingarvídd innan seilingar. Í mari,
sæði og tíðablóði búa nefnilega sömu frumkraftar átaka og endurnýjunar
og í hinum hefðbundnari merkingarklösum þjóðernishyggjunnar. Lesandi
er t.d. minntur á tengsl blóðs og jarðar í nasískri orðræðu (þýs. Blut und
Boden), nýi listinn er því öðrum þræði meira af því sama þótt í honum felist
einnig merkingarlegar ógöngur (ljóðgreinandi er svo heppinn að þurfa ekki
að kreista merkingu úr þjóðfánum Þýskalands og Portúgals, t.d. gröft og
fílapensla).
Forboðnir listar Sjóns eru um margt snúnir, ekki síst vegna þeirrar
írónísku vitundar sem gegnsýrir fagurfræði sköpunarinnar í ljóðum hans.
Í þeim býr þekking á skáldskaparhefð sem unnið er úr á margslunginn hátt.
Hún er skáldskaparfræðilegur grundvöllur ljóða Sjóns, en afstaða skáldsins
til hennar er þó engan veginn einhlít og markast jafnan af ákveðinni póst-
módernískri fjarlægð. Þó að listarnir staðfesti ekki viðtekið menningarlegt
skipulag, eða forgangsröðun, og sundri gamalkunnum flokkunarkerfum og
viðurkenndum táknum, tilheyra þeir einnig ákveðinni uppreisnarhefð, en
í orðinu sjálfu er fönguð sú togstreita íhaldssemi og nýjungagirni sem svo
mjög einkennir skáldskap Sjóns.
Ástráður Eysteinsson hefur líkt Sjón við Jónas Hallgrímsson. Báðir séu
náttúruskáld þótt Sjó-nas horfi fremur til hafsins og sé í líkingum sínum
neðansjávarskáld.48 Í líkingunni við Jónas fólst ákveðin fræðileg ögrun þegar
hún var sett fram fyrst fyrir tæpum aldarfjórðungi. Þó að ögrunin hafi
dofnað með árunum, eftir því sem Sjón fetar sig upp virðingarstiga íslenskra
bókmennta er hún enn kvik. Sjón er svo sannarlega listaskáldið góða.
48 Ástráður Eysteinsson, „Eru augu (s)kynfæri“, Umbrot, Reykjavík: Háskólaútgáfan,
1999, bls. 311. Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 48. árg., 4. tbl. 1987,
bls. 505–512.