Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 91
91
SÖNGVARINN LJÚFI
haflega orðalagið hafi verið strikað út. Það er eftirsjá að orðunum blíðu.
Þau má nefnilega túlka sem orð skáldskaparins, skáldskaparmálið sjálft, sem
samkvæmt táknfræðinni verður til við samruna hrynjandinnar, raddarinnar,
rómsins, tónlistarinnar og hins opinbera tungumáls samfélagsins með
röklegum setningum og einræðri merkingu orðanna.15 Söngfuglinn á ekki
bara að kvaka blíðum rómi, heldur flytja kvæði, þar sem tónar og orð fara
saman. Hann er ljóðasöngvari. Í næstu línu sama erindis hefur víðáttumiklu
landslaginu, „um haf og land“, verið skipt út fyrir þrengra sjónarsvið, „um
hæð og sund“. Með því er ekki aðeins flug farfuglsins lækkað heldur hefur
hafmyndinni verið eytt úr kvæðinu. Fuglinn fer ekki lengur sína löngu ferð
yfir hafið en flýgur yfir hæðir innanlands og sund þar sem sér milli stranda,
og er ekki endilega farfugl.
Í þriðju línu þessa erindis eiga bárurnar að leiða bátinn, stefna honum
að fiskimiði, ákveðnum og eftirsóttum stað. Myndin tilheyrir leiðarlýs-
ingum kvæðisins í samræmi við vindana og fuglinn sem stefna í ákveðna
átt. Eftir breytinguna er þarna hins vegar komið mikið kossaflens, ef til vill
undir áhrifum frá „Kossavísu“ Jónasar, þýddu kvæði, sem birtist einmitt
í sama árgangi Fjölnis,16 og kvengerðar bárurnar eru látnar vera að kyssa
(karlgerðan) bátinn, margar konur um einn karl.
Veigamestu breytingarnar eru í síðasta hlutanum, þríhendunum, þar sem
skiptir um svið og sjónarhornið þrengist að fuglinum. Í frumgerðinni er
hann strax í upphafi fyrstu línu ávarpaður „söngvarinn ljúfi“, og í samræmi
við það kveður hann, syngur hann kvæði. En þeim Brynjólfi og Konráði
líkaði ekki orðið söngvari og breyttu því sýnilegri jafnt sem heyranlegri
mynd söngfuglsins í hugtakið „vorboði“ sem framkallar enga mynd. Það er
athyglisvert að hér er það orðið sem ræður, þeim líkaði ekki orðið, hvert
sem ljóðmálið var. Þannig verður orðið sem slíkt yfirskipað myndinni sem
það um leið eyðir. Með því að fella burt söngvarann er dregið úr tónlistinni
í kvæðinu, fuglinum sem „tónlistarlíkama“.17 Í mjög svo skáldlegum inn-
15 Um skáldlegt mál og kenningar táknfræðinnar, einkum Juliu Kristevu, sjá t.a.m. grein
mína, „Dæmd til að hrekjast. Um ástina, karlveldið og kvenlega sjálfsmynd í Tímaþjófn-
um eftir Steinunni Sigurðardóttur“, Tímarit Máls og menningar, 1/1988, bls. 55–93,
hér bls. 57-58; endurpr. í Helga Kress, Speglanir. Konur í íslenskri bókmenntahefð og
bókmenntasögu, Reykjavík: Háskóli Íslands, Rannsóknastofa í kvennafræðum, 2000.
16 Sbr. nmgr. 13.
17 Hugtakið „tónlistarlíkami“ (fr. le corps de la musique) er komið frá Roland Barthes. Sjá
rit hans, L‘obvie et l‘obtus. Essais critiques III, París: Éditions du Seuil, 1982, einkum
kaflann „La musique, la voix, la langue“, bls. 246–252, um samband raddar, tónlistar
og tungumáls, þar sem röddin eins og hún kemur af skepnunni er talin bera uppi hina