Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 98
98
HELGA KRESS
venju fékk Konráð flest atkvæði, tíu. Næstir komu þeir Brynjólfur Péturs-
son og Gísli Thorarensen með átta atkvæði hvor, en tólf voru á fundi. Ekki
kemur fram hvort kvæðin voru tekin með skildaga eða skildagalaust.
Á næsta fundi, 11. febrúar 1843, gerði Konráð formlega grein fyrir
störfum nefndarinnar sem hefði haldið tvo fundi um útlögð kvæði Jónasar
og hefði Jónas verið á þeim seinni. Á fyrri fundinum hefðu nefndarmenn
skrifað athugasemdir sem þeir hefðu afhent höfundi. Ekki kemur fram
hverjar athugasemdirnar voru en Jónas hafnar þeim og „segir litlu muni
verða breytt í kvæðunum“.35 Konráð sagðist þá efast um að nefndin hefði
gert rétt í að fá höfundi athugasemdirnar í stað þess að fá þær fundinum
beint. Um þetta urðu miklar deilur og einnig um það hvort höfundur mætti
taka verk sitt til baka:
Konráð Gíslason sagði höfundurinn mætti ekki taka ritgjörðina aftur, því
hún var tekin áður á fundi og þá væri kynlegt að fella það aftur með
breytingunum sem áður var tekið, þar sem nefndin átti að gera ritið
betra – hún átti ekki að gera það tækilegt, því það var tekið áður.36
Við þessu brást Jónas og sagði að þótt félagið hefði tekið „ritgjörð og kosið
nefnd, og hefur hún fundið að, en höfundur getur ekki tekið þær breytingar,
og finnur þó að ritgjörðinni er ábótavant – þá á hann frjálst að taka aftur
ritgjörð sína“. Þetta samþykkir Konráð að geti verið skilningur lagagreinar-
innar en vill þó bæta við því undarlega skilyrði að höfundur megi taka
ritgjörð sína aftur „nema því aðeins, að félagið vilji ekki missa hana“.37 Þetta
er ómögulegt að skilja öðruvísi en félagið ráði.
Athyglisvert er að Jónas viðurkennir að verkinu kunni að vera ábótavant
og mun þar eiga við „orðfærið“ sem var mjög til umræðu á fundum í Fjölnis-
félaginu og nefndinni var einkum ætlað að breyta. Af umræðum um kvæði
hans í fundargerðum má sjá að hann er tregur til að breyta og hræddur
um að missa vald á eigin texta. Þetta kemur m.a. fram á fundi 25. febrúar
1843 þar sem enn er rætt um breytingar og rétt höfunda gagnvart nefnd og
félagi. Jóhann Halldórsson spyr Konráð, sem hafði framsögu, hvort félagið
megi láta prenta ritgerð sem sé „breytt svo mikið að höfundur þekkir hana
ekki aftur og vill ekki eiga hana, má þá félagið láta prenta hana að honum
nauðugum?“ Þessu svarar Konráð ekki og Jóhann endurtekur spurninguna.
35 Sama rit, bls. 271.
36 Sama rit, bls. 272.
37 Sama rit, bls. 273.