Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 99
99
SÖNGVARINN LJÚFI
Undir hana tekur Jónas Hallgrímsson og vill fá að vita hvað felist í orða-
tiltækjunum „skildagi“ og „skildagalaust“, sem séu ekki nógu ljós, og spyr
hvort skildagi hafi verið hafður við kvæði sín. Þessu svara þeir Konráð og
Brynjólfur einum rómi: „Nei!“ Jónas segist þá ekki vita muninn á skildaga
og skildagalaust og sé hann hræddur um að höfundar taki ritgerðir sínar
aftur þegar þeir heyra skildagann, „því það er harður kostur fyrir höfund að
leyfa öðrum að breyta riti sínu eftir vild sinni“. Þessu svarar Konráð með
því að nefndin geri ekki breytingarnar, „heldur höfundur eftir bendingum
nefndarinnar“.38 Jónas vildi þá láta árétta það í lögunum að höfundar réðu
breytingunum, en Konráð var á móti og tillaga Jónasar var felld.
Kannski fyrir alla aðra en mig
Samkvæmt lögunum mátti engu breyta í fjarveru höfundar nema með hans
leyfi. Fyrir breytingum í leyfisleysi var þó löng hefð hjá ritstjórum Fjölnis.
Þetta kemur vel fram í bréfaskiptum þeirra Tómasar Sæmundssonar, sem
kominn var til Íslands, og félaga hans í Kaupmannahöfn sem sáu um útgáfu
Fjölnis. Í bréfum sínum kvartar Tómas mjög undan breytingum sem þeir
gera á handritum hans, og það þótt hann hafi í upphafi gefið þeim „þrí-
menningum, redaktörum [. . .] fullkomið leyfi til að umbreyta eftir ykkar
velþóknan“, eins og hann segir í bréfi til þeirra, dagsettu í Laugarnesi 20.
september 1834, um innganginn að fyrsta árgangi Fjölnis.39 Þegar hann ári
síðar fær Fjölni sendan með breytingunum sem þeir hafa gert á innganginum
er honum misboðið. Í bréfi til Jónasar, dagsettu á Breiðabólstað 6. septem-
ber 1835, viðurkennir hann að málið hafi „fegrast“, en „svo fannst mér þó
afhandlingin verða daufari og fjörminni en ég hafði ætlast til [. . .], sjón-
deildarhringurinn verða miklu þrengri og þessi ‘Weltansicht’, sem ég hélt hún
lýsti, verða að engu“. Þá sýnist honum þeir „fordæma allt, sem tekið er af
historíunni til að gefa ræðunni stöðugleik, líf og fegurð og sem hið óratoriska
element aldrei getur án verið“. Um leið dregur hann í og úr með orðum eins
og „en“ og „þó“. Hann telur „sjálfsagt, að allar smekkleysur, ‘flovheder og
svulst’, sem hætt er við að þá skjótist inn með“, verði „hreint að útrýmast“,
en samt sé það ekki annað en „náttúrlegt“ að jafnvel „bestu umbreytingar
komi hverjum höfundi undarlega fyrir fyrst, af því hann sér sinn þankagang
afskorinn hvað eftir annað“. „Að öllu samanlögðu“, segir hann svo, „er þó víst
inngangurinn góður, og kannske fyrir alla aðra en mig [. . .].“40
38 Sama rit, bls. 275.
39 Bréf Tómasar Sæmundssonar, bls. 129.
40 Sama rit, bls. 156. Leturbreytingin er Tómasar.