Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Qupperneq 100
100
HELGA KRESS
Í öðru bréfi til Jónasar, dagsettu á Breiðabólsstað 1. febrúar 1839, ræðir
Tómas enn breytingar þeirra félaga á handritum hans. Hann játar sem fyrr
að málið hjá honum hafi þeir alltaf bætt. Hins vegar hafi þeir „með tilliti
til meiningarinnar“ breytt því þegar þeir hugðu sig „sjá réttara“ til að „fá
hugarburð ykkar eður ‘Yndlingsthema’“. Fyrir „þær“ breytingar, segir hann,
„kann ég ykkur litlar þakkir, því þið sköðuðuð þá oft hugsanir mínar, er þið
skilduð þær ekki, svo fyrir það vantar sumstaðar í, sumstaðar er fyrir það
orðið meira á huldu, og vil ég þar oftast heldur eiga eins og áður var“.41
Tómas var fjarri þegar „afhandlingum“ hans var ritstýrt, og það var líka
Jónas þegar kvæði hans „Ég bið að heilsa“ var lesið upp á fundi í Fjölnis-
félaginu 13. apríl 1844 og sent í prentun, með veigamiklum breytingum
„með tilliti til meiningarinnar“.
Ómögulegt er að vita að hve miklu leyti Jónas samþykkti breytingarnar
á kvæðinu. Frá því hann kom til Kaupmannahafnar að kvöldi 6. maí og þar
til Fjölnir var „búinn til ferðar“, sbr. bréf frá Brynjólfi sem áður er vitnað til,
voru aðeins fimm dagar. Jónas var á fundi í félaginu 9. maí þar sem endanlega
var gengið frá prentuninni, en ekkert í fundargerð bendir til að kvæði hans
hafi verið á dagskrá. Aftur á móti var hann ásamt Konráði kosinn í nefnd
til að lesa ritgerð eftir Brynjólf um alþingi sem tekin hafði verið með öllum
atkvæðum þeirra sex sem á fundi voru.42 Ritgerðin birtist aftast í Fjölni þetta
ár svo að eitthvert svigrúm hefur verið til umræðu um kvæði Jónasar. Til
þess bendir einnig að „Ég bið að heilsa“ er aftarlega í ritinu og stendur þar
sér, en önnur kvæði eftir Jónas, einnig send frá Sórey, eru þar framarlega og
standa saman.43 Það er því ósennilegt að kvæðið hafi verið birt með breyting-
unum án hans vitundar, hvort sem honum hefur líkað það betur eða verr.
41 Sama rit, bls. 253. Í þessu sambandi er vert að benda á ritstýringu Finns Magnússonar
á eiginhandarriti Bjarna Thorarensen að kvæðinu, „Íslands minni“ (Eldgamla Ísafold),
við fyrstu prentun þess 1819, þar sem hann breytir ljóðlínu Bjarna: „og guma girnist
mær“ í málleysuna „og gumar girnast mær“. Með þessu breytir hann konunni (meyj-
unni) úr geranda í viðfang, hefur ekki skilið að hún er fjallkonan, landið persónugert.
Með misskilningi Finns hefur kvæðið svo verið prentað, lært og sungið allar götur
síðan. Um frekari umræðu, sjá grein mína „Guma girnist mær“, Véfréttir sagðar Vé-
steini Ólasyni fimmtugum, Reykjavík: [s.n.], 1989, bls. 41–50; endurpr. í Helga Kress,
Speglanir. Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu.
42 „Fundabók Fjölnisfélags“, Eimreiðin, 2/1927, bls. 183.
43 Það vekur athygli að á eftir „Yfirliti efnisins“ og leiðréttingu á prentvillum í sama
árgangi Fjölnis kemur svofelld „Leiðrétting“ við „Ég bið að heilsa“ sem hafði birst þar
ómerkt : „Á bls. 106 vantar J.H. undir kvæðið.“ Þar sem athugasemdin á aðeins við um
„Ég bið að heilsa“, en ekki önnur kvæði Jónasar í heftinu sem einnig birtust þar ómerkt,
er engu líkara en einhver vafi hafi leikið á höfundarrétti þess, eða jafnvel að Jónas hafi
ekki viljað við það kannast í fyrstu. Í fyrri árgöngum Fjölnis eru kvæði Jónasar ekki sér-
staklega merkt honum, en í næsta árgangi eru þau öll merkt stöfunum J.H.