Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 101
101
SÖNGVARINN LJÚFI
Það er fullgerð sonnetta
Tveimur árum eftir lát Jónasar árið 1845 komu ljóðmæli hans fyrst út á bók,
Ljóðmæli eftir Jónas Hallgrímsson, 1847. Um prentunina sáu þeir Brynjólfur
og Konráð, og enn eru þeir að breyta. Oft eru þetta augljósar lagfæringar á
„misfellum“ sem þeir kalla svo. Til að mynda sleppa þeir upphrópunarmerkinu
á eftir heitinu „Ég bið að heilsa“, einnig inndregnu línunum í uppsetningunni
og gleiðletruninni á rauða skúfnum.44 En þeir breyta fleiru en misfellum. Það
útskýra þeir í formála þar sem þeir segjast hafa breytt „einstaka orðatiltæki“
í kvæðum sem áður hafi birst á prenti þar sem þeir hafi vitað til að höfund-
urinn var búinn að breyta þeim sjálfur. „Og víst er um það,“ segja þeir, „ef
hann hefði lifað og komið sjálfur á prent ljóðmælum sínum, þá mundi hann
hafa lagað flestar þær misfellur, sem þar kunna að finnast.“45 Þannig hafa þeir
Jónas sjálfan fyrir breytingunum og hafa hans leyfi.
Sem dæmi um orðatiltæki sem þeir hafa breytt benda þeir á ljóðlínu úr
kvæðinu til Gaimard þar sem „hjarðir kátar“ í áður prentuðu ljóði Jónasar
verða „hjarðir á beit“.46 Hér skipta þeir ekki aðeins út orði eins og þeir sjálfir
telja heldur breyta ljóðmynd. Kindur á beit eru algengar í íslensku landslagi
44 Ljóðmæli eftir Jónas Hallgrímsson, B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prent-
unina, Kaupmannahöfn 1847, bls. 141. Eftir þessum lagfæringum á „misfellum“ (sbr.
formála ritstjóra, bls. IV) hafa síðan flestar útgáfur farið. Upphrópunarmerkið og
gleiðletrunin (í formi skáleturs) eru þó komin inn aftur í heildarútgáfunni frá 1989,
sbr. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I (Ljóð og lausamál), bls. 196–197. Í skýringum er
tekið fram að fylgt sé frumprentuninni í Fjölni. Það stemmir þó ekki alveg því að upp-
setning er ekki með inndregnum línum án þess að það frávik frá ritstjórnarreglum sé
rætt. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar IV (Skýringar og skrár), ritstj. Haukur Hannesson,
Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson, Reykjavík: Svart á hvítu, 1989, bls. 186.
45 Ljóðmæli eftir Jónas Hallgrímsson, 1847, bls. IV.
46 Kvæðið „Til herra Páls Gaimard“ var áður prentað fyrir veislu til heiðurs Gai-
mard og sungið þar, sbr. sérprent í NKS 3282, 4to. Í eiginhandarritinu sem prentað
var eftir eru hjarðirnar fyrst „feitar“ en yfir það orð strikað og ritað „kátar“ fyrir
ofan línu. Til áréttingar réttum texta hefur Páll Melsteð kvittað á eiginhandarritið:
„Jónas Hallgrímsson sjálfur skrifaði 11ta Jan. 1839 þetta blað. P.M.“ Sbr. Kvæði
Jónasar Hallgrímssonar í eiginhandarriti, bls. 73–75. Enginn útgefandi hefur samt
farið eftir þessum vottaða leshætti, og jafnvel ekki þótt hann sé sannanlega í frum-
prentuninni, en valið að fylgja þeim Brynjólfi og Konráði á kostnað skáldsins sjálfs.
Í skýringum við kvæðið í heildarútgáfunni frá 1989 segjast ritstjórar hafa vikið frá
frumprentuninni og valið „hjarðir á beit“ þar sem þetta sé eina línan sem útgefend-
ur Ljóðmæla 1847 geri grein fyrir að skáldið hafi breytt í lifanda lífi „og er því tekið
tillit til hennar“. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar IV (Skýringar og skrár), bls. 141.
Þeir athuga ekki að þeir Brynjólfur og Konráð nefna þetta sem aðeins eitt dæmi um
breytingar sem Jónas hafi þegar gert eða viljað gera og eigi við fleiri.