Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 109
109
Sveinn Yngvi Egilsson
Náttúra Huldu
Þegar skáldkonan Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, 1881–1946)
kvaddi sér hljóðs í byrjun 20. aldar var henni tekið sem eins konar nátt-
úrubarni í bókmenntunum og list hennar talin sjálfsprottin, enda ætti hún
rætur sínar í norðlenskri sveit. Einar Benediktsson orti kvæði til Huldu árið
1904 og komst svo að orði að hún syngi „með náttúrubarnsins rödd“ og væri
„Dalasvanninn með sjálfunna menning“.1 Annað þjóðþekkt skáld, Þorsteinn
Erlingsson, skrifaði á svipuðum nótum um Huldu árið 1905 og varð tíðrætt
um uppruna hennar og ungan aldur, um „systurlíf hennar við lækina, blómin,
steinana, álfana og alla þá ástvini, sem djúp tilfinning og auðugur skáldandi
getur átt um fagrar brekkur í kærum dal“.2 Um þessar viðtökur fjallar Helga
Kress í inngangi sínum að ljóðasafninu Stúlku og bendir réttilega á að þær
feli í sér náttúrugervingu á Huldu og geri hana barnslega.3 Slík staða er
ekki ákjósanleg fyrir skáldkonu sem vill að mark sé á henni tekið og því má
segja að frá upphafi hafi tengsl Huldu við náttúruna einkennst af ákveðinni
togstreitu. Náttúran var henni mikilvægt yrkisefni og innblástur, en Hulda
átti það sífellt á hættu að litið væri á hana sem eins konar framlengingu á
náttúrunni og ekki sem fullgilt skáld. Hér verður hugað að því margþætta
hlutverki sem náttúran gegnir í ljóðum Huldu, allt frá því að vera uppspretta
lífsyndis til ákveðins þunglyndis sem setur svip sinn á nútímaleg náttúruljóð
skáldkonunnar. Að lokum verður reynt að varpa ljósi á þetta ljóðræna
þunglyndi með því að bera þululjóð Huldu saman við erlendan skáldskap
samtímans.
1 Ármann [dulnefni Einars Benediktssonar], „Til Huldu,“ Ingólfur, 11. ár, 14. blað, 3.
apríl 1904, bls. 53.
2 Þorsteinn Erlingsson, „Annar pistill til „Þjóðviljans“. (Huldupistill)“, Þjóðviljinn, 19.
ár, 25. tölublað, 15. júní 1905, bls. 98–99, hér bls. 98.
3 Helga Kress, „Kona og skáld – Inngangur“, Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur, 2. útg.
(frumútg. 1997), Reykjavík 2001, bls. 11–102; hér bls. 70–71.
Ritið 2/2011, bls. 109–130