Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Qupperneq 110
110
SVEINN YNGVI EGILSSON
Gömul og ný rómantík
Hulda er oft talin til nýrómantískra skálda eða táknsæisskálda, en hún
hefur þó ákveðna sérstöðu í þeirra hópi. Sem kona, húsfreyja, eiginkona
og móðir gat Hulda t.d. ekki samsamað sig hinni nýrómantísku ímynd um
bóhem-séníið eins auðveldlega og karlskáldin og þetta olli innri baráttu sem
birtist víða í ljóðum hennar. Um þetta fjalla þær Guðrún Bjartmarsdóttir
og Ragnhildur Richter í inngangi að úrvali úr verkum Huldu sem kom út
1990.4 Hið sama gerir Guðni Elísson í grein sem birtist í Skírni 1987.5 Eins
og þessir og fleiri fræðimenn hafa bent á er náttúran að ýmsu leyti táknræn
í ljóðum Huldu, þó að táknin séu kannski ekki eins auðráðin og stundum er
haldið. Þannig segja þær Guðrún og Ragnhildur í inngangi sínum um þulu-
ljóðið „Ljáðu mér vængi“: „Náttúrumyndirnar eru tákn fyrir hugmyndir og
hugsjónir, flug grágæsarinnar táknar hér frelsið, hin blómlega ey er tákn
framtíðarvonanna og vængirnir þess afls sem þarf til að láta drauma sína
rætast.“6 Ég er ekki viss um að skáldskapur Huldu sé svo einræður að hægt
sé að túlka táknin kerfisbundið og held raunar að náttúran í ljóðum hennar
sé einstaklega margræð og tengist ekki síður gömlu rómantíkinni heldur en
hinni nýju.
Náttúrusýn Huldu felur í sér rómantíska þætti, eins og gagnvirkt samspil
hugar og hlutveru, hina rómantísku viðurkenningu á því að náttúran er veru-
leiki sem hægt er að lýsa með tilvísun til skynfæranna, og um leið róman-
tískan skilning á náttúrunni sem landslagi, þ.e. fagurfræðilegu viðfangi sem
fellur að vissu leyti inn í ramma málverks og ferðalaga, eins og ótal listamenn
höfðu leitast við að skilgreina í myndlist og skáldskap á umliðnum öldum.7
En náttúrusýn Huldu er vissulega einnig nýrómantísk eða táknsæisleg.
Náttúrufyrirbæri verða auðveldlega táknræn í skáldskap hennar; raunar
ummyndast náttúran gjarnan í álfaheim og hulduland, þannig að huglægnin
er enn meiri en í rómantíkinni. Stundum byrja ljóð Huldu á rómantískan
hátt í þeim skilningi að hún yrkir sig inn í umhverfið með því að nota staðar-
nöfn, náttúruheiti og skynrænar lýsingar að hætti rómantískra skálda, en svo
4 Guðrún Bjartmarsdóttir og Ragnhildur Richter, „Inngangur“, Hulda: Ljóð og laust
mál, Úrval, Reykjavík, 1990, bls. 9–98.
5 Guðni Elísson, „Líf er að vaka en ekki að dreyma. Hulda og hin nýrómantíska
skáldímynd“, Skírnir, 161. ár, vorhefti 1987, bls. 59–87.
6 Guðrún Bjartmarsdóttir og Ragnhildur Richter, „Inngangur“, bls. 36.
7 Ég fjalla um þessa þætti í rómantískri náttúrusýn í greininni „Um hvað tölum við
þegar við tölum um náttúruna? Fjallið Skjaldbreiður eftir Jónas Hallgrímsson“,
Skírnir, 181. árg., hausthefti 2007, bls. 341–359.