Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 111
111
NÁTTÚRA HULDU
þróast ljóðið og verður táknrænt og nýrómantískt í áherslum sínum áður en
yfir lýkur. Ljóðið „Haust“ sýnir þetta vel:
Haustið er hnigið á foldu,
hnigið á bliknandi lönd.
Sumarið fagra er flúið
af fjöllum og hafi og strönd.
Himinn er hulinn skýjum,
hljótt strýkur gola um kinn,
hvíslar að blöðum og blómum:
„Blundið og hvílist um sinn“.
Heiðlóu heyri ég kveðja
hjartkæra bústaðinn sinn.
Rödd hennar einmana ómar
innst inn í huga minn.
Haustnótt í hjarta mér skyggir,
huggun það alls enga sér.
Sumarið fagra er flúið,
flúið um eilífð frá mér.8
Náttúrumyndirnar í lok kvæðisins eru notaðar í yfirfærðri merkingu og
standa fyrir ákveðið hugarástand, þ.e. sálrænar „árstíðir“, en framan af fela
þær í sér skírskotun í raunverulegt, ytra fyrirbæri sem ljóðmælandinn getur
samsamað sig við. Önnur dæmi um þetta tvíþætta hlutverk náttúrunnar
– sem táknrænan heim og einnig ytri vettvang samsömunar – eru ljóðin
„Rósir“ og „Vatnslilja“.9 Hulda rúmar á þennan hátt bæði rómantík og ný-
rómantík, náttúruhyggju og táknsæi. Sérstaða hennar sem náttúruskálds
felst að nokkru leyti í þessari fjölþættu sýn sem er óvenjulegt að birtist með
svo skýrum hætti hjá einum og sama höfundinum.
8 Hulda, Kvæði, Reykjavík, 1909, bls. 12. Tilvitnanir í verk Huldu eru færðar til
nútímahorfs í þessari grein, enda er hvorki staf- né greinarmerkjasetning samræmd
í upprunalegum útgáfum hennar.
9 Hulda, Segðu mjer að sunnan. Kvæði, Reykjavík, 1920, bls. 79 og 84.