Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 112
112
SVEINN YNGVI EGILSSON
Ytra og innra landslag
Samband bókmennta og náttúru er flókið viðfangsefni sem hægt er að
nálgast á ýmsan hátt. Svokölluð vistrýni (e. ecocriticism) hefur rutt sér til
rúms á undanförnum áratugum, ekki síst í rómantískum fræðum, en hún
er þverfræðileg rannsóknaraðferð eða fræðasvið sem helgað er sambandi
bókmennta og náttúru. Augu fræðimanna hafa m.a. beinst að umhverfisvit-
und einstakra skálda og hvernig þau marka sér stað í tilverunni á mállegum
forsendum. Ég hef gert tilraunir um vistfræðilegan lestur á ljóðum nokkurra
íslenskra skálda og m.a. lagt út af heimspekikenningum Martins Heidegger
í því skyni, t.d. í grein sem birtist í Engli tímans, minningarriti um Matthías
Viðar Sæmundsson.10 Hægt er að lesa ljóð Huldu á sambærilegan hátt, enda
bera mörg þeirra vott um sterka samsemd við umhverfið og viðleitni til að
yrkja sig inn í það með lýsandi hætti sem endurspeglar ákveðna staðarvit-
und og náttúruhyggju. Hulda yrkir ljóð eins og „Hagahraun“, þar sem hún
tíundar í smáatriðum ákveðin náttúrufyrirbæri og örnefni, þannig að um-
hverfið stendur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans:
Elfarnið þungan og þýðan
bar þeyrinn á hvarflandi vængjum.
Laxá að hraunbaki leið
ljósblá um eyjar og nes.
* * *
Bergvatnsins bláskæru augu
og bugðóttu smákílar liggja
haganum hraungirtum í,
hyljótt og blælygn og tær.
10 „Tilbrigði við skógarhljóð. Flögrað á milli þriggja greina í myrkviði Martins Heidegger“,
Engill tímans. Til minningar um Matthías Viðar Sæmundsson, ritstj. Eiríkur Guðmunds-
son og Þröstur Helgason, Reykjavík: JPV útgáfa, 2004, bls. 61–80. Nemendur mínir
hafa gert hliðstæðar tilraunir um vistfræðilegan lestur á verkum einstakra skálda og rit-
höfunda, eins og lesa má um í eftirtöldum meistaraprófsritgerðum við Háskóla Íslands:
Helga Birgisdóttir, Þegar neglt var fyrir sólina, kríurnar rötuðu ekki heim og einn maður
átti sér draum. Vistrýni og verk Andra Snæs Magnasonar (2007); Jónína Guðmundsdótt-
ir, Að leita sér staðar á ljóðvegum. Um staðarljóð Jónasar Hallgrímssonar, Snorra Hjartar-
sonar og Hannesar Péturssonar (2010); Sigríður Egilsdóttir, Skáldskapurinn í náttúrunni.
Birtingarmyndir náttúrunnar í nokkrum skáldsögum Halldórs Laxness (2011).