Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 113
113
NÁTTÚRA HULDU
Rauðfættir sundhanar sveima
og sílin þar skjótast í felur;
endur þar ungana fyrst
æfa þá grípa þeir sund.11
Hér ber lítt á þeirri táknrænu og handanlægu heimssýn sem birtist oft í
nýrómantískum skáldskap; ljóðið er fremur ort í anda gömlu rómantíkurinnar
og samsemdin við náttúruna er aðalatriðið. Hulda sýnir okkur heildarmynd
af ákveðnu landssvæði í stóru og smáu, allt frá fjallasýn – „Hvert fjall stóð í
bláhiminsljóma“12 – til jurta og fugla sem hún lýsir af miklum kunnugleika.
En þó má greina ákveðinn saknaðartón í kvæðinu, enda hefst það á orðunum
„Manstu’ eftir hrauninu háa / og haganum ilmsmáragræna / þar sem við
sorglaus og sæl / sveimuðum vorlangan dag?“13 Þetta er með öðrum orðum
fortíðarmynd af landslagi sem tengist áhyggjuleysi og sveitasælu. Brag-
formið áréttar að sínu leyti þann söknuð sem lesa má úr kvæðinu, því að
það er tilbrigði við tregalag eða elegískan hátt. Hulda yrkir sig þannig inn í
þá hefð sem Jónas Hallgrímsson staðfærði í ljóði sínu „Ísland, farsældafrón
og hagsælda hrímhvíta móðir“, þar sem hann brá upp landslagsmyndum
horfinnar tíðar og tregaði hana undir sama bragarhætti með tilvísun í þjóð-
arsöguna. En Hulda er einlægari en Jónas og talar ekki fyrir hönd hóps eða
þjóðar heldur lýsir hún heimahögunum eins og sá sem saknar þess að geta
ekki lengur sveimað þar um í sorgleysi æskunnar.
Annað ljóð sem er athyglisvert í þessu samhengi er „Í garði föður míns“,
en eitt erindi þess er svohljóðandi:
Athvarf mitt og yndi
ávallt fann ég hér
hvort sem lék í lyndi
lífið unga mér
eða vangann vættu tár.
Hér varð gleðin hundraðföld,
hryggðin minna sár.14
11 Hulda, Segðu mjer að sunnan, bls. 68.
12 Sama rit, sama stað.
13 Sama rit, sama stað.
14 Hulda, Kvæði, bls. 56.