Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 115
115
NÁTTÚRA HULDU
á. Í nútímaljóðum megi því greina huglæga kortlagningu sem sé á mörkum
veruleika og ímyndunar; sálrænar stærðir séu umritaðar í landslag eða hinu
ytra varpað inn á við. McLuhan kallar þessa nútímalegu tækni og afstöðu
innra landslag (e. interior landscape, fr. paysage intérieur).17
Innra landslag kemur víða fyrir í ljóðum Huldu. Hvað sem annars má
segja um áðurnefnt kvæði Einars Benediktssonar til hennar reyndist hann
sannspár að þessu leyti þegar hann lýsti mögulegri þróun Huldu sem skálds
þannig að hún ætti eftir að snúa sér „inn – að þeim æðra heimi“.18 Ytri lýsingar
Huldu verða auðveldlega sálfræðilegar og endurspegla ákveðið hugarástand,
eins og birtist meðal annars í alþekktu myndmáli hennar um flug, vængi og
fugla. Víðáttan fer að ígilda andlegu frelsi. Hulda metur það við staði eins og
Húsavík að þó að þar „skorti skóg / og skjól sé lítt“ þá sé „hugrúm nóg / við
hafið vítt.“19 Eins getur hugarheimur skáldkonunnar tekið á sig skynrænar
myndir, þannig að ytri myndum er varpað inn á við. Ármann Jakobsson
hefur fjallað um hliðstæða þætti í þululjóðum Theódóru Thoroddsen og
ræðir um að yfirnáttúran verði þar órjúfanlegur þáttur í náttúrusýninni eða
heimsmyndinni.20 Því má segja að hin nýrómantíska náttúrusýn eða heims-
mynd yfirstígi þann greinarmun sem oft er gerður á náttúru og yfirnáttúru,
eða veruleika og sálarástandi, sem í nýrómantíkinni eru oft einn og sami
heimurinn. En þá er ekki öll sagan sögð því að fjölþætt náttúrusýn Huldu
er ekki sett fram með hefðbundnum hætti heldur finnur hún nýjar leiðir til
þess að koma þessari sýn til skila með ljóðstíl, myndmáli og síðast en ekki síst
með frjálslegra formi en hafði tíðkast í íslenskri ljóðagerð.
17 Marshall McLuhan, „Tennyson and picturesque poetry,“ The Interior Landscape. The
Literary Criticism of Marshall McLuhan 1943–1962, Selected, compiled, and edited by
Eugene McNamara, New York og Toronto: McGraw-Hill, 1969, bls. 135–155. Ég
fjalla nánar um kenningu McLuhans í greininni „Gönguskáldið“, Okkurgulur sandur.
Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar, ritstj. Magnús Sigurðsson, Akranesi: Upp-
heimar, 2010, bls. 99–118.
18 Þetta kemur fram í fjórða erindi kvæðisins: „ – Svo opnast þín sjón eina sorgarnótt /
fyrir sól þeirri’ er aldrei hverfur í æginn; / og upp frá því þráirðu eilífðardaginn / með
Edenlífsins síunga þrótt. / Þá snýrðu þér inn – að þeim æðra heimi; / augu þín skyggn-
ast í draumanna geimi, / og alstaðar sérðu að líf er og ljós / við línskarir dauðans – í
hrímgluggans rós.“ Ármann [Einar Benediktsson], „Til Huldu“, bls. 53 (stafsetningin
er færð til nútímahorfs).
19 Hulda, Kvæði, bls. 145–146 (tilvitnun í ljóðið „Húsavík við Skjálfanda“).
20 Ármann Jakobsson, „Í heimana nýja. Skáldkona skapar sér veröld“, Andvari, 122. ár,
1997, bls. 109–127.