Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 116
116
SVEINN YNGVI EGILSSON
Þunglyndisleg náttúra
Náttúrusýn Huldu er í grundvallaratriðum harmræn þó að hún yrki oft um
unaðinn sem fylgir samlífi manns við jurtir, dýr og hvers kyns náttúrufyrir-
bæri. Náttúran er fögur og yndisleg en hún er um leið þunglyndisleg og
mörg ljóð Huldu nefna harm eða sorg á nafn í tengslum við náttúruna. Þetta
getur verið hryggð yfir hinu liðna sem ekki kemur aftur, en svo getur harm-
urinn líka verið óútskýrður og án eiginlegs viðfangs að því er séð verður.
Þunglyndi án viðfangs er vel þekkt í bókmenntum og fleiri dæmi má finna
um það í íslenskri ljóðagerð.21 Kveðskapur um náttúruna – einkum sá sem
sver sig í hefð hjarðljóða (pastoral) – virðist auk þess hafa sérstaka tilhneig-
ingu til að tengjast þungum þönkum.22 Í aldanna rás hafa þróast sérstakar
ljóðategundir sem bera þessu vitni og má þar nefna hjarðljóðaraunir (e.
pastoral elegy).23
Kannski væri of djúpt í árinni tekið að halda því fram að Hulda þróaði
heildstæða eða kerfisbundna náttúruspeki í verkum sínum, en þó skilgreinir
hún afstöðu og hlutverk náttúrunnar í einstökum ljóðum með tilliti til
harmsins. Nokkur munur er á því hvernig hún skilgreinir þetta frá einu ljóði
til annars, en mörg þeirra fela í sér áþekka hugsun um harminn. „Segðu
engum sorgir mínar“ er eitt af þessum ljóðum og lýsir endurfundum fullorð-
ins ljóðmælanda við umhverfi bernskunnar:
Svipfögur er sveitin mín um sumarnætur.
Döggin yfir grasið grætur,
grundir vefa blómsturrætur.
Aftankyrrðin er svo ljúf þá engir vaka
utan þrestir þeir er kvaka
þýtt og glatt og vængjum blaka.
21 Sjá áðurnefnda grein mína, „Gönguskáldið“, um ljóðagerð Gyrðis Elíassonar og
almenna umfjöllun um þunglyndi án viðfangs í bók Juliu Kristevu, Svört sól. Geðdeyfð
og þunglyndi, Ólöf Pétursdóttir þýddi, ritstj. Dagný Kristjánsdóttir, Reykjavík: Há-
skólaútgáfan, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008, sbr. bls. 61 o.v.
22 Terry Gifford, Pastoral, The New Critical Idiom, Lundúnum og New York: Routledge,
1999, bls. 49 o.áfr.; sjá einnig Greg Garrard, Ecocriticism, The New Critical Idiom,
Lundúnum og New York: Routledge, 2004, bls. 37 o.áfr.
23 Ég fjalla um Hulduljóð Jónasar Hallgrímssonar sem hjarðljóðaraunir í bókinni Arf-
ur og umbylting. Rannsókn á íslenskri rómantík, Reykjavík: Hið íslenska bókmennta-
félag og ReykjavíkurAkademían, 1999, bls. 101–109.