Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 118
118
SVEINN YNGVI EGILSSON
Þannig má segja að ljóðmælandinn sé í allt að því líkamlegu sambandi við
náttúruna og gráti ofan í jörðina í þeirri von að eitthvað spretti af tárunum.
Þessi hugsun Huldu kann að kallast á við þann grát sem þekktur er í hjarð-
ljóðaraunum og hafður er til marks um samúð náttúrunnar með mannlegu
hlutskipti, en það eru oft náttúrufyrirbæri eða ómennskar verur sem fella
tárin (blómálfarnir í „Ferðalokum“ Jónasar Hallgrímssonar eru dæmi um
þetta og grátur Huldu í „Hulduljóðum“). En freistandi er að lesa „Segðu
engum sorgir mínar“ sem svar skáldkonunnar við áðurnefndu kvæði eftir
Einar Benediktsson og þá sérstaklega hinum fleygu orðum í niðurlaginu:
Drekktu af geislunum dalarós, –
en dyldu þig ei hver skóp þeirra ljós.
Þá festist þitt útsáð í akursins skaut
og yngir upp dalsins lautir og hóla.
Þá lifirðu’ í framtíð – með fölnað skraut,
fyrsti gróður vors nýjasta skóla.26
Lokaorðin eru hrósyrði að því leyti að Einar lýsir því yfir að nýjabrum sé
að kvæðum Huldu, en þau fela þó í sér hlutgervingu eða náttúrubindingu
sem gerir lofið tvíbent. Myndmál af þessu tagi getur grafið undan sjálfs-
mynd skáldkonu, enda er þar litið á hana sem ómálga náttúru.27 Hulda snýr
myndmáli Einars við í kvæði sínu. Hún heldur grundvallarlíkingu mann-
legrar tjáningar við vöxt í náttúrunni, en munurinn er sá að hún sjálf er ekki
gróður og tjáningin er þunglyndisleg – tár koma í stað fræja. Svar Huldu
er þunglyndisleg staðfesting á því að hún er fullgilt skáld og hefur eigin
rödd, en það er á kostnað barnsins sem stóð í beinu sambandi við náttúruna.
Lokalínan með hversdagslega orðalaginu „barnið horfið eins og gengur“ er
full eftirsjár en sýnir líka að skáldkonan hefur kvatt það barn sem Einar og
aðrir höfðu lofsungið.
Í öðrum ljóðum Huldu er harmurinn óljósari en tengist oft hvarfi einhvers
– og þá ekki endilega hvarfi barnsins í manni sjálfum. „Heiðarstúlkan“ syrgir
sveininn sinn og sér „Augu hans blómdaggarblá / blika mér hvarvetna mót.“28
26 Ármann [Einar Benediktsson], „Til Huldu“, bls. 53.
27 Helga Kress, „Kona og skáld – Inngangur“, bls. 70–71. Sbr. Margaret Homans,
Women Writers and Poetic Identity. Dorothy Wordsworth, Emily Brontë, and Emily Dick-
inson, Princeton, New Jersey: Princeton University Press, 1980; sjá einkum 2. kafla
bókarinnar, um Dorothy Wordsworth, bls. 41–103.
28 Hulda, Segðu mjer að sunnan, bls. 21.