Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 120
120
SVEINN YNGVI EGILSSON
sorgmædd og haldin óyndi „síðan ég kvaddi Sóldali / síðasta sinni“, eins og
segir þar.31 Í öllum þessum þululjóðum tengist harmurinn náttúrunni og því
að vera ekki á réttum stað. Hér verður vikið að formi þululjóðanna áður en
talinu verður aftur snúið að náttúrusýninni, enda má leiða líkur að því að
þessar miklu nýjungar Huldu – þuluformið og hin þunglynda afstaða – eigi
samleið inn í skáldskap hennar.
Yelena Yershova fjallar í grein í Andvara 2003 um þululjóð Huldu og
Theódóru Thoroddsen og ber þau saman við þekktan þulukveðskap frá
síðmiðöldum. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að nýrómantísk þululjóð
Huldu og Theódóru séu í rauninni býsna ólík gömlu þulunum. Oft móti
fyrir erindaskiptum í þululjóðunum og þau séu mun formfágaðri heldur en
gömlu þulurnar, auk þess sem rímið sé frábrugðið, þ.e. runurím einkenni
gömlu þulurnar en víxlrím þululjóðin. Þululjóðaskáld nýrómantíkurinnar
bregði einnig upp mynd af handanheimi sem sé fjarri gömlu þuluhefðinni, þó
að finna megi ákveðnar samsvaranir í heimi íslenskrar þjóðtrúar almennt.32
Sé þetta rétt ályktað er ekki hægt að skýra tilurð og einkenni þululjóðanna
einfaldlega sem endurvakningu á þulunum gömlu heldur verður að huga að
öðrum skýringarþáttum í því samhengi. Sú spurning verður áleitin hvort
þululjóðin séu ekki nútímalegri skáldskapur en oft er haldið.
Guðrún Bjartmarsdóttir og Ragnhildur Richter telja að í þululjóðum
sínum sameini Hulda „þjóðlega hefð og erlendar nýjungar“, ekki síst í djörfu
rími og „ýmissi tækni, sem í nútímaljóðlist kemur í staðinn fyrir bragregl-
urnar gömlu. Breytileg línulengd og brot á hrynjandi, hliðstæður, and-
stæður og endurtekningar, myndmál og vísanir í annan skáldskap, allt stefnir
þetta að því að skapa ákveðinn hugblæ eða stemningu.“33 Þarna sé því „ekki
aðeins um formendurnýjun að ræða heldur heyrist í fyrstu þulum Huldu
sá angurværi og dulúðugi hreimur þjóðvísnanna og gamalla viðlaga sem
átti eftir að setja svip sinn á ljóðagerð flestra ungra skálda næstu áratugina
og hefur verið áberandi tónn í íslenskri lýrík jafnan síðan.“34 Sveinn Skorri
Höskuldsson benti á það í grein í Árbók Háskóla Íslands 1993 að þululjóð
þeirra Huldu og Theódóru hefðu ýmis hljómræn einkenni sem líktust skáld-
skap táknsæisins úti í Evrópu á ofanverðri 19. öld, þar sem mikið hafi verið
31 Hulda, Kvæði, bls. 110.
32 Yelena Yershova, „Hinn nýi „gamli“ kveðskapur. Þululjóð 20. aldar og síðmið-
aldaþulur“, Andvari, 128. ár, 2003, bls. 123–151.
33 Guðrún Bjartmarsdóttir og Ragnhildur Richter, „Inngangur“, bls. 35–36.
34 Sama rit, bls. 37.