Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 133
133
SKÓLALJÓÐ
Skólaljóð 1901–1920
Í upphafi skipulegs skólahalds á Íslandi voru það oft prestar sem veittu
skólanefndum forystu6 og fyrstu skólaljóðin fyrir íslensk börn voru valin og
tekin saman af séra Þórhalli Bjarnarsyni (1855–1916). Þórhallur var sonur
Björns prófasts Halldórssonar í Laufási og varð biskup árið 1908 og gegndi
því embætti til dauðadags. Hann sat í skólanefnd barnaskóla Reykjavíkur
árin 1888–1906 og gaf út lesbækur, Barnabiblíu og Fornsagnaþætti auk fyrstu
Skólaljóðanna sem komu árið 1901.
Í formála þeirra segir Þórhallur að mikill auður felist í ljóðlist Íslendinga
og þessa „þjóðareign verðum vér að gjöra oss sem arðmesta“. Að auki eru
ljóð skáldanna vel fallin til að kenna börnum sögu og innræta þeim ást á
landinu. Þar að auki læri unglingar móðurmálið mest og best á því að læra
bundin ljóð. Þórhallur segir líka að kvæðabækur séu lítið sem ekkert notaðar
í skólastarfinu. Um valið á ljóðunum segist hann einfaldlega hafa valið þau
kvæði er honum þóttu best og skemmtilegust sjálfum og vilji kenna börnum
sínum. Hann segir: „Langmest eiga þeir Jónas og Matthías, Jónas um landið
og Matthías um mennina“ og að lokum biður hann þau skáld sem búa utan
Reykjavíkur að fyrirgefa sér að hann hafi ekki beðið þá um leyfi til að taka
ljóð þeirra í safnið.7
Skólaljóð Þórhalls Bjarnarsonar skiptist í kafla eftir höfundum í tímaröð.
Sögð eru deili á hverju skáldi í nokkrum setningum, nefndar eru bækur
hans og stuttlega sagt hver séu helstu einkenni hans sem ljóðskálds. Þannig
segir um Eggert Ólafsson: „Alstaðar skín í gegn brennandi ættjarðarást og
þjóðrækni“ (bls. 5) og um Jónas Hallgrímsson: „Þeir [Fjölnismenn] treystu
því, að hver sem sér og skilur hina réttu mynd þjóðarinnar í sögunum, hann
fær brennandi ást á ættjörðinni og tungunni. … Kynslóðin sem nú lifir, þriðja
í röðinni frá Jónasi, lærir enn kvæði hans engu síður en það sem nú er bezt
ort, og getur látið skáld eigi kosið sér betra lof.“ (bls. 29) Um Sveinbjörn
6 Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007, Fyrra bindi: Skólahald í bæ og sveit 1880–
1945, Loftur Guttormsson (ritstj.), Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008, bls. 60.
7 Um aldamótin var Reykjavík lítill bær og þar bjuggu Þorsteinn Erlingsson, Stein-
grímur Thorsteinsson, Hannes Hafstein, Benedikt Gröndal, Einar Hjörleifsson
Kvaran og Jón Ólafsson en Matthías Jochumsson, Valdimar Briem, Stephan G.
Stephansson, Einar Benediktsson og Páll Ólafsson bjuggu úti á landi eða í útlöndum.
Helmingur „þjóðskáldanna“ sem ljóð áttu í bókinni voru enn lifandi þegar hún kom
út. Þórhallur Bjarnarson, Skóla-ljóð, Kvæðasafn handa unglingum til að lesa og nema.
Valið hefir og búið til prentunar Þórhallur Bjarnarson, Reykjavík. Kostnaðarmaður:
Sigfús Eymundsson. Glasgow-prentsmiðjan, 1901, bls. 3–4