Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 135
135
SKÓLALJÓÐ
handa börnum og unglingum8 sem Jónas frá Hriflu (1885–1968) valdi en þau
komu út árið 1924. Fyrra bindið kom tveimur árum seinna, eða 1926, en
efni í það völdu Benedikt Björnsson og Egill Þorláksson, báðir norðlenskir
kennarar. Þórhallur Bjarnarson hafði aldrei kennt sjálfur í barnaskóla og
Jónasi fannst nokkuð vanta upp á að ljóðaúrval hans hentaði börnum. Sjálfur
var hann reyndur kennari. Eysteinn Þorvaldsson fjallar ítarlega um skólaljóð
hans í bók sinni Ljóðalærdómur (1988) og telur ljóðaúrval hans um margt
betur heppnað en úrval Þórhalls, hann velur mikið af (meló)dramatískum
kvæðum sem höfða til ungs fólks en hann velur líka megnið af þjóðernis-
ljóðum Þórhalls og helmingurinn af ljóðavali hans eru sömu ljóð og voru í
bók Þórhalls.9
Meiri breytingar urðu þegar Jón Magnússon (1910–1968) valdi í Skólaljóð
árið 1938.10 Jón Magnússon var með fil.cand. próf frá Stokkhólmsháskóla og
þremur árum eftir útgáfu Skólaljóða hans varð hann fréttastjóri hins nýstofn-
aða Ríkisútvarps og gegndi því starfi til dauðadags. Í ljóðaúrvali hans, sem
er tvískipt, eru 136 kvæði eftir 40 skáld. Það er ekki auðvelt að sjá hvernig
bókin er byggð en helst er að sjá að ljóðum sé raðað eftir einhvers konar
nafnskiptakerfi eða „metonymískt“. Þannig tengist eitt ættjarðarkvæði öðru
slíku og fuglakvæði kallar á tvö önnur en svo víkur sögunni að haustinu í
einu kvæði og næst á eftir fer annað árstíðakvæði en fyrr en varir riðlast
þetta kerfi og stokkið er yfir í ótengdan efnisflokk og svo koll af kolli. Skóla-
ljóðin skiptast í nokkurs konar kafla eða deildir og við kaflaskil er ljóð eftir
eitthvert þjóðskáldanna og teiknuð mynd af því fyrir ofan ljóðið. Myndirnar
dró Sigurður Sigurðsson en nafns hans er ekki getið í fyrstu útgáfu. Í næstu
útgáfu Skólaljóðanna er bætt úr þessu og hans nafns getið en þá er sleppt að
geta nafna þeirra sem völdu ljóðin.
Þessi Skólaljóð komu í lok kreppunnar miklu og þó að ættjarðarljóðin séu
enn á sínum stað hafa bæst við nýir höfundar sem ortu um hversdagsfólk;
Davíð Stefánsson, Örn Arnarson, Stefán frá Hvítadal, Jóhann Jónsson og
Tómas Guðmundsson. Alþýðumenn eins og „Jón Hrak“ eftir Stephan G.
Stephansson, „Feigur Fallandason“ Bólu-Hjálmars og „Stjáni blái“ eftir Örn
8 Nýju skólaljóðin, úrvalsljóð handa börnum og unglingum, Jónas Jónsson frá Hriflu sá um
útgáfuna, 2. bindi, 1924, Akureyri: Bókafjelagið, 1926.
9 Eysteinn Þorvaldsson, Ljóðalærdómur. Athugun á skólaljóðum handa skyldunámskólum
1901–1979, Rit Kennaraháskóla Íslands. A-flokkur, Rannsóknarritgerðir og skýrslur
4. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands, 1988, bls. 37–71.
10 Skólaljóð, Jón Magnússon tók saman, Sigurður Sigurðsson dró myndirnar, Reykjavík:
Ríkisútgáfa Námsbóka, 1938.