Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 137
137
SKÓLALJÓÐ
útgefendanna af því sem þeir gera ekki í þessum Skólaljóðum. Niður-
staðan er sú að þeir sjái ekki þörf á nýju námsefni í kvæðum né heldur
nýjum kennsluháttum en telja rétt að halda áfram á sömu braut og þegar
hafði verið mörkuð.11
Eysteinn ræðir síðan sérstaklega hlut barnaljóðaskáldsins Stefáns Jónssonar
í þessu vali og segir:
Af þessu virðist mega ráða að Stefán hafi haft tvíátta sjónarmið gagnvart
kvæðalestri barna. Annarsvegar hafi hann skilið og fundið nauðsyn barna
og unglinga fyrir skemmtilegan kveðskap, og sjálfur hafði hann köllun
til að yrkja í þeim dúr. Á hinn bóginn virðist hann ætla skólaljóðum eitt-
hvert hefðbundið hlutverk í varðveislu hefðbundinna kvæða og viðtek-
inna viðhorfa og að það hlutverk eigi skólarnir að rækja.12
Eysteinn Þorvaldsson gagnrýnir hugmyndafræði þessarar bókar og það líka
að Skólaljóðin 1943 skuli ekki aðeins horfa fram hjá borgarmynduninni, en
70% þjóðarinnar bjuggu þá þegar í þorpum og bæjum, heldur taka upp ljóð
full af siðferðilegri fordæmingu á Reykjavík sem kom m.a. fram í því að velja
ljóðið „Reykjavík – Þjóðminningardaginn 1897“ eftir Einar Benediktsson
(Þar fornar súlur flutu á land). Hann segir: „Hversvegna skyldi vera horfið
aftur í tímann með þessum hætti en ekki leitast við að láta lestrarefni skól-
anna nálgast samtíðina og veruleika hennar?“13 Hann getur þess að bókin
er sett saman á hernámsárunum og við því sé að búast að þjóðernisvitund sé
sterk og ástæða þyki til að minna á hættuna af ágangi stórvelda og erlendum
áhrifum. Þetta er síst ofmælt. Árið 1943 þegar úrvalið kom út hafði her-
námsliðið lagt undir sig skólabyggingar í bænum og allt skólahald var á
hrakhólum. Bæði kennarar og foreldrar höfðu þungar áhyggjur af börn-
unum, andlegri velferð þeirra og öryggi innan um vopnaða hermenn.
Reykjavík var hættulegur staður fyrir börn sem léku sér á götunum. Margir
höfðu líka áhyggjur af því hve opnir og ógagnrýnir Íslendingar voru á allt
það sem útlent var og töldu menningarlegu forræði þjóðarinnar ógnað.14
Stefán Jónsson skrifaði grein í þessum dúr um barnabækur árið 1957
í tímaritið Melkorku. Þar ræðst hann gegn fjöldaframleiddum reyfurum í
11 Eysteinn Þorvaldsson, Ljóðalærdómur, bls. 97.
12 Sama rit, bls. 97
13 Sama rit, bls. 99.
14 Gunnar M. Magnúss, Virkið í norðri I. Hernám Íslands, Helgi Hauksson sá um útgáf-
una, Reykjavík: Bókaútgáfan Virkið, 1984, bls. 157–161.