Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 139
139
SKÓLALJÓÐ
saman. Þær veita fræðslu og ábendingar um ártöl, menn og atburði, sem
oft er spurt um á prófum. Þær eru náms — og kennslutæki og ekkert
annað.... Nokkur forn orð og orðasambönd eru í vísunum, og það er með
ráði gert. Njóti þeir svo heilir, sem nema.18
Hér þrítekur Örn að vísurnar séu nytjaskáldskapur og það eru þær. Í Barna-
skóla Akureyrar lærðum við til dæmis þetta utanbókar um kristnitökuna:
Árið 1000.
Árið þúsund lagði að láði
Leifs í vestri gnoðin.
Kóngur ekki að sér gáði,
Ormur langi hroðinn.
Að Halls og Þorgeirs heillaráði
hætt að blóta goðin.19
Það skal fúslega viðurkennt að þetta er ekki mikill skáldskapur en hann þjón-
aði sínum tilgangi og gerði staðreyndastaglið skemmtilegra.
Skólaljóðin 1964
Eftir að Skólaljóð þremenninganna höfðu þjónað sínum tilgangi var ráð-
ist í nýja útgáfu Skólaljóða árið 1964 og í þetta sinn var það afar reyndur
skólamaður, Kristján J. Gunnarsson (1919– 2010) sem valdi í heftið. Kristján
var formaður stjórnar Námsgagnastofnunar á þessum árum og fræðslustjóri
í Reykjavík varð hann 1972–1982. Skólaljóð hans var stærsta skólaljóðasafn
sem komið hafði, 169 ljóð voru í því eftir að Kristján hafði bætt við átta
kvæðum eftir Snorra Hjartarson í endurútgáfu safnsins árið 1970. Ljóðunum
er raðað eftir skáldum, í tímaröð, og er það í samræmi við þrjú aðalmarkmið
höfundar með bókinni en það var að gefa nemendum bókmenntasögulegt
yfirlit og efla með þeim ást á ljóðum og tilfinningu fyrir fegurð þeirra en
til þess þurftu ljóðin náttúrlega að uppfylla þriðja skilyrðið sem var að vera
við hæfi barna og unglinga. Bókin var myndskreytt af Halldóri Péturssyni.
Myndir fengu þar meira rými en áður hafði sést í kennslubókum og sýndist
sitt hverjum um það eins og fram kemur hér á eftir.
18 Örn Snorrason, Íslandssöguvísur, Akureyri: Bókaútgáfan Norðri, 1959, bls. 2.
19 Sama rit, bls 15.