Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 145
145
SKÓLALJÓÐ
því að boða þjóðernishyggju í grunnskólum landsins, borgarsamfélagið var
orðið meginviðmið og módernisminn ríkjandi kveðskaparhefð.34 Kanónan
er með öðrum orðum ekki lengur falin heldur opin, hún er ennþá studd af
stofnun en sá stuðningur er orðinn óstöðugur og umdeildur og ljóðaúrvöl
eru orðin sértæk en ekki almenn.
Kanónur
Ekki er til neitt frambærilegt, íslenskt heiti á fyrirbærinu „kanónu“. Í orða-
bókum segir að „kanón“ merki lágasöngur eða keðjusöngur og „kanóna“
merki fallbyssa.35 Hugtakið er upphaflega komið úr hebresku og vísar til
helgra texta Biblíunnar. Notkun þess í umræðum um bókmenntir er hins
vegar ekki gömul þó að hugtakið sé það. Í umræðum um vísindi, listir og
menningu vísar hugtakið „kanóna“ til úrvals af bestu verkum innan tiltek-
inna list- eða fræðagreina og þegar verk er valið á slíkan úrvalslista er það
þar með „kanóníserað“. Hins vegar getur ekki hver sem er búið til bók-
menntakanónu þjóðar eða tímabils. Kanóna verður ekki til nema á bak við
hana standi stofnanavald sem tryggir réttmæti úrvalsins og fylgir því eftir,
oftast með hjálp skólakerfisins.
Eins og sagt var hér í upphafi voru bókmenntasagan, þjóðarbókmenntir
og þjóðernisboðskapur „þrenning sönn og ein“ í höndum þjóðfrelsishreyf-
inga 19. aldar. Hið sögulega sjónarhorn er kjölfesta bókmenntasögunnar.
Nýrri bókmenntasögur hafa lagt til hliðar þjóðernisboðskapinn og flestar
reyna að draga upp mynd af margvíslegum bókmenntum og jafnvel því al-
þjóðlega menningarumhverfi sem þær eru sprottnar úr og hluti af. Mark-
mið bókmenntasögunnar er bæði að lýsa og kenna og höfundar slíkra sagna
reyna því að sýna bæði hið einstaka og dæmigerða. Hvernig til tekst er alltaf
34 Grunnskólar Íslands halda hina svokölluðu „Stóru upplestrarkeppni“ árlega og vorið
2004 var gerð könnun í þrjátíu skólum víðs vegar um landið til að rannsaka hvaða
höfunda börnin veldu og hvort þau veldu fremur hefðbundin en óhefðbundin ljóð,
hvort einhver tiltekin ljóð væru vinsælli en önnur og hvers vegna. Könnunin sýndi,
eins og sambærilegar bandarískar kannanir að börnin völdu hefðbundin skáld og ljóð
þeirra til upplestrar. Efstir á vinsældalista barnanna árið 2005 voru Davíð Stefánsson
frá Fagraskógi, Tómas Guðmundsson og Þórarinn Eldjárn. Ingibjörg B. Frímanns-
dóttir, 2006, „Slysaskot í Palestínu – könnun á ljóðavali keppenda í Stóru upplestrar-
keppninni“, Hrafnaþing 3. árgangur, Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla
Íslands, bls. 105–129, hér bls. 117.
35 Íslensk orðabók, Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt, ritstjóri Mörður Árnason, Reykjavík:
Edda, 2002, bls. 749.