Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 146
146
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
matsatriði eins og sjá mátti í deilunum sem upp komu í kjölfar hinnar nýju
Bókmenntasögu Máls og menningar IV. og V. bindis veturinn 2006–2007.36
Kanónur hafa bókmenntasögurnar á bak við sig en þær eru hvorki
bundnar af hefð né sögu eins og þær. Verk eru kanóníseruð af því að þau
eru „bestu“ eða „mikilvægustu“ verkin að mati þeirra sem búa kanónuna til.
Það gefur auga leið að slíkt val verður alltaf umdeilt og Torill Steinfeld telur
kanónuna þess vegna vera lýðræðislegri en gömlu bókmenntasögurnar:
Umræðurnar um kanónuna hafa ögrað gamalli tvíhyggju milli hámenn-
ingar og lágmenningar, milli fortíðar og nútíðar, miðju og jaðra. Þjóðar-
bókmenntirnar komu í bókmenntasögulegum pakka með það markmið að
mennta þjóðina en hin athyglisjúku kanónuverkefni sem við eigum að venj-
ast nota lista, fagurfræðilegt mat á einstökum verkum og þeim notkunar-
möguleikum sem þau bjóða nútíma lesendum. Verkin lifa hér og nú; þess
vegna eru þau þess virði að lesa þau og deila um þau í fjölmiðlum.37
Um 1990 átti sér stað mikil umræða um norsku bókmenntakanónuna í ljósi
vaxandi fjölda innflytjenda. Sú stefna varð ofan á í skólakerfinu að til að geta
tekið á móti því ókunna verði menn að þekkja sjálfa sig og hugmyndafræð-
ina um eitt og óskipt þjóðerni. Í námskránum 1994 og 1997 var sjónum því
beint að norskri þjóðarbyggingu, kanónum, og sagt var að örugg, þjóðernis-
leg sjálfsmynd gerði nemendur opna og umburðarlynda en ekki hið gagn-
stæða. Þetta væri uppistaðan í farsælu „menningarlæsi“ (e. cultural literacy).
Í kjölfarið fór mikil áhersla á bókmenntasögu í bæði grunn- og framhalds-
skólum, listar voru gerðir yfir höfunda og verk sem kynna átti og deilt var
opinberlega um samsetningu þeirra.
Á tíunda áratugnum var hins vegar kúvent frá þessari stefnu. Drög að
nýrri námsáætlun á vegum menntamálaráðuneytisins voru kynnt í Noregi
árið 2005 og þar var ekki gert ráð fyrir norskri kanónu, enginn höfundur var
nefndur, ekki einu sinni Ibsen, ekki var minnst á menningararf eða rætur og
höfundar námskrárinnar forðuðust orðið “norskur” eins og heitan eldinn.
Eftir storm af gagnrýni var þessum drögum breytt en hin sögulegu tengsl
eru aðeins til umræðu í þemum eða sem gildi eða rædd í samhengi við stíl
og frásagnaraðferðir. Í háskólunum er mikið valfrelsi í orði en á borði er
36 Þröstur Helgason tekur deilurnar saman í greininni „Íslensk höfundasaga“ í Lesbók
Morgunblaðsins, laugardaginn 11. nóvember, 2006.
37 Torill Steinfeld, „Norsk kanon og kanondannelse – historiske linjer, aktuelle konflikter
og utfordringer“, TiidSchrift voor Skandinavistiek vol. 30, nor. 1, 2009, bls. 171–172.