Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 165
165
ÞJÓÐKIRKJA OG TRÚFRELSI
að þjóðkirkju beri eðli sínu samkvæmt að njóta umtalsverðrar sjálfsstjórnar
og ástunda hana á lýðræðislegan hátt.52
Annað merkingarsvið í þjóðkirkjuhugtakinu er meirihlutakirkja.53 Er
það mikilvægt við túlkun á stjórnarskrárákvæðum sem um fyrirbærið fjalla
og samræmist sú merking vel þeim hugmyndum sem búa að baki „lýsandi“
kirkjuskipan sem felur það eitt í sér að sú kirkja sem meirihluti þjóðar kýs að
tilheyra skuli njóta sérstöðu að lögum og jafnvel í stjórnarskrá einvörðungu
vegna þessarar stöðu sinnar meðal þjóðarinnar. Er þá litið svo á að viðkom-
andi kirkja muni missa þessa formlegu sérstöðu ef meirihluti þjóðarinnar
yfirgefur hana.54 Lýsandi kirkjuskipan af þessu tagi tengist á engan hátt játn-
ingargrundvelli eða kenningum meirihlutakirkjunnar enda fæli slík tenging í
sér mismunun án málefnalegra ástæðna. Eins og drepið hefur verið á skiptir
þessi merking þjóðkirkjuhugtaksins miklu máli við túlkun á bæði íslensku og
dönsku kirkjuskipaninni.
Kirkjuskipanin og gildi samfélagsins
Í umræðu um kirkjuskipan landsins gætir stundum þess sjónarmiðs að hún
feli í sér að minnsta kosti óbeina tilvísun til þess að stjórnarskráin í heild
hvíli á lútherskum grunngildum eða gildum sem af þeim verði dregin. Hér
hefur verið litið svo á að samband kirkjuskipanarinnar og gildanna sé öfugt.
Það er að kirkjuskipanin sé leidd af sögulegum gildagrunni samfélagsins
sem mótaður sé af lútherskum trúararfi. Stjórnarskráin leggur ríkisvaldinu
þannig aðeins þá skyldu á herðar að styðja og vernda lúthersku kirkjuna
„að því leyti“ sem hún sé tákn fyrir þessi gildi eða farvegur fyrir þau meðal
þjóðarinnar. Þá felst aðeins í stjórnarskránni að þessi stuðningur og vernd
skuli vera til staðar meðan meirihluti þjóðarinnar telur kirkjuna þjóna sem
slíkur farvegur.
Við endurskoðun stjórnarskrárinnar virðist eðlilegt að fengist sé við
grunngildi samfélagsins. Hér skal litið svo á að mikilvæg gildi í því sambandi
52 Einar Arnórsson (1880–1955, lagaprófessor og alþm.) andæfði þessum skilningi.
Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, Reykjavík: á kostnað höf., 1912, bls. 33–34.
Þórhallur Bjarnarson (1855–1916, biskup frá 1908) gagnrýndi einnig þá stefnu að
þjóðkirkjan ætti að njóta verndar ríkisins en eigi að síður vera sem sjálfstæðust frá
því. „Þórarinn prófastur Böðvarsson“, Kirkjublaðið. Mánaðarrit handa íslenzkri alþýðu,
5/1895, bls. 105–108, hér bls. 106.
53 Sjá t.d. Þjóðkirkja í þúsund ár, Reykjavík: Biskupsstofa og Skálholtsútgáfan, útgáfufélag
þjóðkirkjunnar, 1998, bls. 2–3.
54 Hans Gammeltoft-Hansen, „§ 4“, Danmarks Riges Grundlov med kommentarer, 1999,
bls. 47.