Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 166
166
HJALTI HUGASON
séu til dæmis mannhelgi, samstaða, jafn réttur allra, velferð öllum til handa
í félagslegu, efnahagslegu og andlegu tilliti og „helgi“ náttúrunnar. Auðvelt
er að telja þetta allt kristin gildi. Það má þó líka færa að því rök að þetta
séu klassísk vestræn gildi sem séu húmanísk eða sammannleg þegar dýpst
er skoðað. Þá er mikilvægt að taka afstöðu til hvort kveðið skuli beint á um
sameiginleg gildi samfélagsins í stjórnarskránni eða hvort þau eigi fremur að
endurspeglast í henni í heild.
Sé fyrri leiðin valin má benda á að sá háttur er hafður á í lögum um
grunnskóla frá 2008 (2. grein). Þar segir meðal annars:
Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, krist-
inni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð,
umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.55 (Leturbr. höf.)
Þá má benda á að við fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar í Noregi (2013) er
stefnt að því að gildagrunnur norsks samfélags verði skilgreindur þannig:
Værdigrundlaget forbliver vor kristne og humanistiske Arv. Denne
Grundlov skal sikre Demokrati, Retsstat og Menneskerettighederne.56
(Leturbr. höf.)
Stjórnarskráin verður að mynda ramma utanum íslenskt samfélag í heild
en það þróast nú hratt í átt til fjölmenningar. Saga þess undanfarin 1000 ár
hefur þó að verulegu leyti mótast af kristinni menningarhefð. Spyrja þarf
hvort og/eða á hvern hátt sú arfleifð eigi að koma fram í nýrri eða endur-
skoðaðri stjórnarskrá.
Trúfrelsi
Því næst verður vikið að tveim síðari greinum trúmálabálksins (63. og 64.
grein) sem kveða á um trúfrelsi landsmanna.
Trúfrelsið sem stjórnarskráin tryggir er þríþætt: Öllum er heimilt að
stofna trúfélög og iðka trú sína einir eða með öðrum í samræmi við sannfær-
ingu sína (63. grein). Þá er heimilt að standa utan trúfélaga og engum verður
55 Lög um grunnskóla 2008 nr. 91 12. júní: http://www.althingi.is/lagas/138b/2008091.
html [sótt 31. 1. 2011].
56 Grunngildi [samfélagsins] hvíla á kristnum og húmanískum arfi okkar. Stjórnarskráin
skal leggja grunn að lýðræði, réttarríki og mannréttindum. Politisk avtale av 10. april
2008.