Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 183
183
Theodor W. Adorno
Ræða um ljóðlist og samfélag
Þýski heimspekingurinn, félagsfræðingurinn og menningargagnrýnandinn
Theodor W. Adorno (1903–1969) er einn þeirra lykilhöfunda sem kenndir
eru við Frankfurtar-skólann, en nafnið er tengt „Rannsóknarstofnun í
félagsvísindum“ sem var stofnuð við Johann Wolfgang Goethe-háskólann
í Frankfurt árið 1924. Meðlimir skólans fengust við breitt svið viðfangs-
efna í rannsóknum sínum og markmiðið var heildstæð greining á gerð og
þróun borgaralegs nútímaþjóðfélags, þar sem leitast var við að greina flókið
samband hugmyndafræðilegra og efnahagslegra þátta. Meðal helstu meðlima
Frankfurtar-skólans má auk Adornos nefna Herbert Marcuse, Erich Fromm,
Leo Löwenthal og Max Horkheimer sem var lengst af forstöðumaður
stofnunarinnar. Fræðimennirnir sóttu að verulegu leyti til kenninga Karls
Marx (auk skrifa fræðimanna eins og Nietzsches og Freuds) en settu um leið
fram harða gagnrýni á ríkjandi söguskoðun og þjóðfélagskenningu marxism-
ans, þar sem gengið var út frá hugmyndum um vélgengt samband grunns og
yfirbyggingar og litið á menninguna sem hreina afurð efnahagslegra þátta.
Með skrifum sínum lögðu þeir grunn að því sem þeir nefndu „gagnrýna
kenningu“ um þjóðfélagið, en hugtakið markar ekki aðeins skýra aðgrein-
ingu frá „hefðbundinni kenningu“, eins og kristallast í titli þekktrar greinar
eftir Horkheimer frá 1937,1 heldur einnig frá hefð rétttrúnaðarmarxisma.
Með rannsóknum sínum mótaði Frankfurtar-skólinn nýtt „viðmið félags-
vísinda“, svo vitnað sé til orða Rolfs Wiggershaus,2 og hann hefur haft mót-
andi áhrif á skrif fræðimanna er hafa unnið að efnishyggjulegri greiningu á
1 Max Horkheimer, „Traditionelle und kritische Theorie“, Traditionelle und kritische
Theorie. Vier Aufsätze, Frankfurt am Main: Fischer Taschenbuch Verlag, 1970, bls.
12–56.
2 Rolf Wiggershaus, Die Frankfurter Schule. Geschichte. Theoretische Entwicklung.
Politische Bedeutung, München: DTV, 1997, bls. 9. Greinargóða úttekt á sögu
Frankfurtar-skólans má finna í umræddri bók Wiggershaus og einnig í eldra riti Mart-
ins Jay: The Dialectical Imagination. A History of the Frankfurt School and the Institute of
Social Research 1923–1950, Berkeley: University of California Press, 1973.
Ritið 2/2011, bls. 183–204