Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 184
184
THEODOR W. ADORNO
menningu, fagurfræði og þjóðfélagsgerð innan ólíkra greina hug- og félags-
vísinda.
Lítið hefur farið fyrir íslenskum þýðingum á verkum Adornos og er
textinn sem hér birtist ekki aðeins hugsaður sem kærkomin viðbót við þær
þýðingar sem áður hafa birst,3 heldur einnig sem kynning á einu þeirra lykil-
sviða sem höfundurinn fékkst við í skrifum sínum. Textinn er í senn skýrt
dæmi um heimspekilega ígrundaða ljóðgreiningu Adornos, sem má finna
víða í síðari skrifum hans, og lýsandi fyrir sýn hans á sérstöðu fagurfræðinnar
og hlutverk hennar innan borgaralegs nútímasamfélags. Í textanum má sjá
hvernig söguspekileg ígrundun, þjóðfélagsleg gagnrýni, bókmenntaleg
textatúlkun og menningarrýni fléttast saman í heildstæðri og beittri grein-
ingu, þannig að ekki verður skilið þar á milli.
Textinn var upphaflega ritaður og fluttur sem útvarpserindi og til eru
ólíkar gerðir af honum frá árunum 1951 til 1958.4 Erindið er ritað á þeim
tíma þegar Frankfurtar-skólinn hafði snúið aftur til heimaborgarinnar eftir
útlegðarár í Kaliforníu, þar sem starfi hans hafði verið haldið áfram á stríðs-
árunum og allt til ársins 1949. Eftir endurkomuna til Frankfurt helgaði
Adorno krafta sína í auknum mæli spurningum um bókmenntir og listir og
lagði grunn að þeirri kenningu á sviði nútímafagurfræði sem hann setti fram
með skipulegustum hætti í ritinu Ästhetische Theorie (Fagurfræðileg kenning,
1970). Lykilhugmynd í fagurfræði Adornos snýr að því sem kalla má „lögmál
neikvæðisins“ og er samofið hugmyndinni um sjálfstæði listarinnar. Að mati
Adornos gegnir listin lykilhlutverki sem einskonar andhverfa borgaralegrar
þjóðfélagsgerðar – listin myndar sjálfstætt svið sem er undanþegið ríkjandi
kröfum um skilvirkni og markaðsgildi og getur þannig þjónað sem athvarf
til viðnáms og gagnrýni.
Mestu skiptir þó að hugmyndin um að listin lúti eigin lögmálum birtir
ekki innbyggða eða „eðlislæga“ hneigð listsköpunar, heldur er hún afurð
sögulegs ferlis. Adorno fæst á gagnrýninn hátt við hefð fagurfræðilegrar
umræðu innan þýskrar hughyggju, sem rekja má aftur til skrifa Karls
Philipps Moritz, en hugmyndir um sjálfstæði eða „autónómíu“ listarinnar
urðu að rótgrónum þætti í borgaralegri fagurfræði eftir að Kant vann úr
3 Sjá Max Horkheimer og Theodor W. Adorno, „Menningariðnaður. Upplýsing sem
múgsefjun“, þýð. Benedikt Hjartarson, Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstj. Guðni
Elísson, Reykjavík: Forlagið, 2003, bls. 234–271; Theodor W. Adorno, „Vandkvæði
siðfræðinnar. Sautjándi fyrirlestur, fluttur 25. júlí 1963“, þýð. Stefán Jónsson, Hugur,
2003, bls. 20–28.
4 Sjá Wiggershaus, sama rit, bls. 579.