Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Blaðsíða 186
186
THEODOR W. ADORNO
Goethes, Rilkes, Baudelaires, Mörikes, Georges, Garcías Lorcas, Walthers
von der Vogelweide, Pindars og Brechts. Adorno nálgast ljóðið sem eins-
konar „söguspekilegt sólúr“ – svo gripið sé til líkingar höfundarins – er geri
lesandanum kleift að greina það andartak í þróun samfélagsins sem ljóðið
kviknar af. Þannig leitast Adorno við að greina heildarmynd samfélagsins
eins og hún birtist í ljóðinu, en lýsandi dæmi um þessa áherslu má finna í
túlkun hans á frægu ljóði Goethes, „Kvöldljóð vegfaranda“, þar sem friðsæl
náttúrustemningin umbyltist í beitta greiningu á mannfjandsamlegri þjóð-
félagsgerð. Ljóð Goethes hljóðar þannig í þýðingu Helga Hálfdanarsonar:
Tign er yfir tindum
og ró.
Angandi vindum
yfir skóg
andar svo hljótt.
Söngfugl í birkinu blundar.
Sjá, innan stundar
sefur þú rótt.9
Greining Adornos kann að koma flatt upp á lesendur – ljóðið hefur „yfir-
bragð hughreystingar“ og segja má að það þjóni sem uppbót fyrir misbresti
hins borgaralega þjóðfélags: „hyldjúp fegurð orðanna verður ekki greind
frá því sem þau þegja yfir, hugmyndinni um heim sem gefur engin grið“.10
Merkingarþungi yrðingarinnar verður þó greinilegur sé hún skoðuð í sam-
hengi við fagurfræði Adornos og kenninguna um „lögmál neikvæðisins“.
Adorno andæfir þeirri viðteknu hugmynd að ljóðið sé vettvangur
einstaklingsbundinnar tjáningar eða einkareynslu er sé ósnortin af mótun
þjóðfélagsins. Sú hugmynd, sem Adorno eignar áheyrendum sínum, „að
tjáning ljóðsins brjótist undan þunga efnisheimsins og særi þannig fram
mynd lífs sem sé laust undan oki ríkjandi iðju, nytsemdarinnar, áþján hinnar
óvægnu sjálfsbjargarviðleitni“ er afurð borgaralegrar hugmyndafræði.
Hér skiptir mestu að „þessi krafa á hendur ljóðlistinni, um hið óspjallaða
9 Johann Wolfgang von Goethe, „Kvöldljóð vegfaranda“, Helgi Hálfdanarson, Erlend
ljóð frá liðnum tímum, Reykjavík: Mál og menning, 1982, bls. 78.
10 Í þessu samhengi má benda á athyglisverða greiningu Helgu Kress á náttúruljóði
eftir Snorra Hjartarson, sem byggir að hluta til á grein Adornos, „Mannsbarn á
myrkri heiði. Um samband listar og þjóðfélags í kvæði eftir Snorra Hjartarson“,
Tímarit Máls og menningar, 2/1981, bls. 142–152.