Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Qupperneq 187
187
RÆÐA UM LJÓÐLIST OG SAMFÉLAG
orð, er sjálf samfélagsleg“, þ.e. hún er afurð sundrandi þjóðfélagsgerðar
sem grundvallast á einstaklingshyggju. Og hið sama gildir um ljóðformið
– söguspekileg ljóðgreining Adornos er ekki síst sérstæð að því leyti, að
hann leitar hins samfélagslega þáttar ekki í inntaki ljóðsins eða glímu þess
við umheiminn, heldur í sjálfu forminu.11 Þannig leggur hann áherslu á að
hin efnishyggjulega greining geti ekki leyft sér að þvinga samfélagslegum
hugtökum upp á ljóðin, heldur verði hún „að móta þau út frá nákvæmri
skoðun á verkunum sjálfum“. Erindið er gott dæmi um hvernig Adorno
fléttar saman nákvæmri formgreiningu og efnishyggjulegri söguskoðun
í margbrotinni túlkun á afurðum nútímamenningar og því sem kalla má
„pólitík“ hins listræna forms.
Í síðari hluta erindisins leggur Adorno fram greiningu á tveimur ljóðum,
eftir Eduard Mörike og Stefan George, sem tilheyra ólíkum tímabilum í
þróun nútímaljóðsins. Í meðförum Adornos sýnir nítjándu aldar ljóð
Mörikes, frá Biedermeier-tímanum (1815–1848), viðbragð ljóðlistarinnar
við ferli iðnvæðingar og vaxandi markaðshyggju, þegar sótt er vægðarlaust
að hugmyndinni um mannsæmandi líf. Brugðist er við þessu ferli með
hreinsun ljóðmálsins og yfirdrifinni skáldlegri tjáningu, sem í ljóði Mörikes
verður að einskonar stundlegri draumsýn sem er á skjön við veruleika sög-
unnar. Gildi ljóðsins felst ekki síst í vitund þess um að hár stíllinn tilheyrir
horfinni heimsmynd, það birtir þrá eftir ósviknu eða „milliliðalausu lífi“ sem
nútímavæðingin hefur í raun þegar upprætt. Ljóð Georges, frá árinu 1907,
tilheyrir aftur á móti síðara og viðsjárverðara skeiði í sögu ljóðlistarinnar.
Adorno lýsir ljóðinu sem síðbúinni afurð dulúðugrar hefðar nútímaljóð-
listar, sem rekja megi aftur til verka Baudelaires. Í ljóðlist symbólismans
slítur tungumál skáldskaparins sig fortakslaust frá tungumáli hversdagsins og
hafnar ríkjandi kröfum um skilvirk boðskipti. Tilraun ljóðlistarinnar til að
varðveita eigin hreinleika andspænis gangverki markaðsvæðingarinnar leiðir
til þess að tungumál hennar verður að einskonar launhelgum sem eru slitnar
úr sambandi við reynsluheim þjóðfélagsþegnanna.12 Í túlkun Adornos má
greina tvíbenta afstöðu, hann lýsir ljóði Georges sem röklegum lokapunkti
11 Um hinn formræna þátt í ljóðgreiningu Adornos, sjá einnig Robert Kaufman,
„Adorno’s Social Lyric, and Literary Criticism Today. Poetics, Aesthetics, Mod-
ernity“, The Cambridge Companion to Adorno, ritstj. Tom Huhn, Cambridge: Cam-
bridge University Press, 2004, bls. 354–375.
12 Sjá nánar Howard Caygill, „Lyric Poetry before Auschwitz“, Adorno and Literature,
ritstj. David Cunningham og Nigel Mapp, London, New York: Continuum, 2006,
bls. 69–83, hér einkum bls. 73–74.