Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 189
189
RÆÐA UM LJÓÐLIST OG SAMFÉLAG
Tilkynningin um fyrirlestur sem er helgaður ljóðlist og samfélagi mun
fylla mörg ykkar ónotum. Þið búist við félagsfræðilegri athugun sem getur
tengst sérhverju viðfangsefni að vild, líkt og menn fundu fyrir fimmtíu
árum upp sálfræði og fyrir þrjátíu fyrirbærafræði allra hugsanlegra hluta.
Ykkur grunar að umræðunni um skilyrðin sem sköpunarverk hafa orðið til
við og umræðunni um virkni þeirra sé ætlað að koma á ósvífinn hátt í stað
reynslunnar af þessum verkum eins og þau eru – að flokkun og vensl muni
ryðja burt innsýninni í sannindi eða ósannindi sjálfs efniviðarins. Þið eruð
tortryggin á að menntamaðurinn kunni þar með að gerast sekur um það sem
Hegel sakaði hinn „formlega skilning“ um, það er að hann líti yfir heildina en
hefji sig um leið yfir þá einstöku tilveru sem hann ræðir um, þannig að hann
sjái hana í raun ekki, heldur setji á hana merkimiða. Í ljóðlistinni skynjið þið
einkar vel hvað er vandræðalegt við þess konar aðferð. Það á að hrófla við
hinu viðkvæmasta og brothættasta og tengja það einmitt því gangverki sem
ímynd ljóðlistarinnar – að minnsta kosti í hefðbundnum skilningi – reynir
að halda sig frá. Með athuguninni á að snúa upp í eigin andhverfu tjáningar-
sviði sem er eiginlegt að brjótast undan valdi félagsmótunar, ýmist með því
að gangast ekki við henni eða með tilfinningaþrunginni fjarlægð eins og hjá
Baudelaire og Nietzsche, og kollvarpa sjálfsmynd þess á hrokafullan hátt.
Getur nokkur – kunnið þið að spyrja – rætt ljóðlist og samfélag annar en sá
sem sneyddur er öllu listskyni?
Við slíkum grunsemdum verður augljóslega ekki brugðist með því að
misnota ljóðræn sköpunarverk sem sýnidæmi fyrir félagsfræðilegar tilgátur,
heldur aðeins þegar tengsl verkanna við samfélagið afhjúpa eitthvað í eðli
þeirra, einhverja grunneigind. Tengslin eiga ekki að leiða burt frá listaverk-
inu, heldur dýpra inn í það. Jafnvel hin einfaldasta ígrundun sýnir að þess má
vænta. Því inntak ljóðs er ekki aðeins tjáning einstaklingsbundinna kennda
og reynslu, heldur verða þær ekki listrænar fyrr en þær öðlast hlutdeild í hinu
almenna, einmitt fyrir tilstilli sérstöðunnar sem er fólgin í fagurfræðilegri
mótun þeirra. Ekki svo að skilja að ljóðið þurfi að vera milliliðalaus tján-
ing á reynslu allra. Almennt gildi þess er ekki volonté de tous [vilji allra], ekki
einber tjáning þess sem hinir eru einfaldlega ekki færir um að tjá. Það er
öllu heldur úr dýpi hins einstaka sem ljóðið hefst upp á svið hins almenna
með því að birta hið óbjagaða, hið óhöndlaða, hið óflokkaða. Þannig gefur
það hugboð um ástand þar sem engir rotnir almannahagsmunir, sem eru í
grunninn hagsmunir afmarkaðs hóps, fjötra lengur hina ósviknu, hagsmuni
mannsins. Af skilyrðislausri áherslu á sjálfsmótun einstaklingsins væntir
hið ljóðræna sköpunarverk almenns gildis. Sérstæð áhætta ljóðlistarinnar