Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Qupperneq 190
190
THEODOR W. ADORNO
felst aftur á móti í því að sjálfsmótunarlögmál hennar getur ekki tryggt að
útkoman verði bindandi eða sannferðug. Það er ekki á hennar valdi hvort
hún heldur fast við hendingu hinnar nöktu, aðgreindu tilveru.
Þetta almenna gildi hins ljóðræna inntaks er aftur á móti samfélagslegt í
eðli sínu. Aðeins sá sem nemur rödd mannkynsins í einsemd ljóðsins getur
skilið hvað það segir; jafnvel einsemd hins skáldlega orðs sem slíks er mörkuð
af hinu einstaklingsmiðaða og á endanum sundrandi samfélagi, á sama hátt
og skuldbindingin við hið almenna helgast aftur á móti af því hversu ramm-
gerð sjálfsmótun einstaklingsins er. En þess vegna er hugsuninni sem býr í
listaverkinu rétt og skylt að grennslast af festu fyrir um samfélagslegt inntak
þess, að láta sér ekki lynda óræða tilfinningu fyrir því sem er almennt og allt
um kring. Þessi skilgreining hugsunarinnar er ekki utanaðkomandi íhugun
sem er listinni framandi, heldur krefst sérhvert sköpunarverk tungumálsins
hennar. Ekki verður komist til botns í eiginlegum efnivið hennar, hugtök-
unum, með athugun einni. Til að geta skoðað þau fagurfræðilega þarf alltaf
að hugsa þau um leið, og þegar ljóðið hefur brugðið á leik með hugsunina
lýtur hún ekki boðum þess.
Þessi hugsun – samfélagsleg túlkun ljóðsins og raunar allra listaverka – má
þó ekki stefna beint að hinni svokölluðu samfélagslegu stöðu eða samfélags-
legum hagsmunatengslum verkanna eða jafnvel höfunda þeirra. Hún verður
öllu heldur að kanna hvernig heild samfélagsins, sem þverstæðukenndrar ein-
ingar í sjálfri sér, birtist í listaverkinu; að hvaða marki listaverkið fer að vilja
samfélagsins og að hvaða marki það brýtur í bág við það. Aðferðin verður
að beinast að hinu íverandi, svo gripið sé til orðalags heimspekinnar. Það
á ekki að bera samfélagsleg hugtök að sköpunarverkunum utan frá, heldur
verður að móta þau út frá nákvæmri skoðun á verkunum sjálfum. Setn-
ingin í Maximen und Reflexionen [Orðskviðum og íhugunum] eftir Goethe,
sem segir að þú hafir ekki vald á því sem þú skilur ekki, á ekki aðeins við
um fagurfræðilega afstöðu til listaverka, heldur einnig um fagurfræðilega
kenningu: ekkert sem býr ekki í sjálfri gerð verkanna getur verið forsenda
skilgreiningar á þeim samfélagsþáttum sem inntak þeirra, hið skáldaða, sýnir.
Slík skilgreining krefst vitaskuld bæði þekkingar á innri gerð listaverkanna
og á samfélaginu fyrir utan. En sú þekking verður aðeins bindandi ef hún
finnur sjálfa sig fyrir með því að gefa sig efninu alfarið á vald. Nauðsynlegt
er að vera á varðbergi, einkum gagnvart því hugmyndafræðihugtaki sem
nú hefur verið flatt út að mörkum hins óbærilega. Því hugmyndafræði er
ósannindi, falsvitund, lygi. Hún afhjúpast í misheppnuðum listaverkum, í
eigin sviksemd, og sætir gagnrýni. Að kalla mikil listaverk hugmyndafræði,