Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 193
193
RÆÐA UM LJÓÐLIST OG SAMFÉLAG
leggst ég niður“ [Ach, ich bin des Treibens müde]14 úr kvæðinu á undan,
sem ber sama heiti, til að reyna að túlka „Kvöldljóð vegfaranda“ [Wanderers
Nachtlied]. Reisn þess kvæðis sprettur að vísu af því að það ræðir ekki um
hið firrta eða það sem truflar, að ólga hlutverunnar stendur ekki andspænis
hugverunni í ljóðinu heldur nötrar innra með henni sjálfri. Gefið er fyrirheit
um annað milliliðaleysi: hið mannlega, tungumálið sjálft, er sem sköpunin
enn á ný, á meðan allt utanaðkomandi fjarar út í bergmáli sálarinnar. En hið
mannlega verður meira en ásýnd, það verður óskoraður sannleikur vegna
þess að yfir sáttinni hvílir – í krafti þess að ljúft magnleysi er tjáð í máli –
skuggi söknuðar og jafnvel dauða. Í línunni „Sjá, innan stundar“ verður allt
lífið, með dularfullu og tregablöndnu brosi, að stuttu andartaki fyrir svefn-
inn. Hljómur friðarins sýnir að honum varð ekki komið á nema draumurinn
brysti. Skugginn hefur ekkert vald yfir mynd þess lífs sem hefur horfið til
sjálfs sín en sem síðasta minningin um afmyndun þess ljær hann draumnum
þunga djúpsins undir þyngdarlausu kvæðinu. Frammi fyrir náttúru sem hvíl-
ist, þar sem öllu því sem minnir á manninn hefur verið eytt, áttar hugveran
sig á eigin fánýti. Ógreinanlega og hljótt líður írónían um hughreystingu
ljóðsins: sekúndurnar fyrir sælu svefnsins eru þær sömu og skilja hverfult
lífið frá dauðanum. Eftir daga Goethes hefur þessi háleita írónía fallið niður
á svið hinnar meinfýsnu. En hún var alltaf borgaraleg: skuggahliðin á upp-
hafningu hinnar frelsuðu hugveru er niðurlæging hennar í mynd hinnar
víxlanlegu, í tilveru sem aðeins þjónar einhverju öðru; skuggahlið pers-
ónuleikans er spurningin „hvað þykistu vera?“ „Kvöldljóðið“ sækir hins
vegar sannferðið í andartak sitt: bakgrunnur þess sem tortímir sviptir því
út úr leiknum, á meðan tortímingin drottnar ekki enn yfir friðsælu valdi
hughreystingarinnar. Oft er sagt að fullkomið ljóð verði að búa yfir heildar-
mynd eða algildi, það verði að miðla heildinni innan síns eigin ramma og
hinu óendanlega innan endimarka sinna. Eigi þetta að vera nokkuð annað
en gömul tugga þeirrar fagurfræði sem grípur til hugtaks hins táknræna sem
allra meina bótar, þá vísar það til þess að í sérhverju ljóði verður sögulegri
afstöðu hugverunnar til hlutverundarinnar, einstaklingsins til samfélagsins,
að hafa lostið niður í miðli hins huglæga anda sem er varpað aftur til sjálfs
sín. Hann verður þeim mun fullkomnari því minna sem sköpunarverkið
gerir samband sjálfs og samfélags að viðfangsefni, því tilviljanakenndar sem
þetta samband skín í gegn í verkinu sjálfu.
14 Þessi ljóðlína úr fyrra ljóði Goethes er sótt í þýðingu Erlings Sigurðarsonar frá Græna-
vatni, „Næturljóð ferðalangs“, Heilyndi. Reykjavík: Mál og menning, 1997, bls. 51.