Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Side 201
201
RÆÐA UM LJÓÐLIST OG SAMFÉLAG
ast nokkurt annað skáld þýskrar tungu bjó yfir í sama mæli. Meint sjúkleg
einkenni Mörikes sem sálfræðingar hafa gert grein fyrir – og einnig þverr-
andi afköst hans á ritvellinum á efri árum – eru hið neikvæða í sívaxandi
vissu hans um það sem er mögulegt. Ljóð þessa ímyndunarveika prests frá
Cleversulzbach, sem talinn er til bernskra listamanna, eru listasmíði sem
enginn af meisturum l’art pour l’art [listarinnar fyrir listina] hefur slegið við.
Hann er jafn vitandi um hið hola og hugmyndafræðilega í hinum háa stíl og
um meðalmennskuna, smáborgaralega deyfðina og blinduna á heildina sem
einkenna Biedermeier-tímann, en þá var megnið af ljóðum hans ort. Andi
hans sér sig knúinn til að búa einu sinni enn til myndir sem hvorki koma
upp um sig í pilsfellingunum né við kráarborð fastagestanna, hvorki í sann-
færingarkraftinum né í smjattinu. Það er líkt og fetað sé einstigi innra með
honum, þar sem finna má síðustu lífsmerki hins háa stíls, sem tórir í endur-
minningunni, ásamt teiknum um milliliðalaust líf, sem gáfu fögur fyrirheit
þegar hneigð sögunnar var í raun þegar búin að rétta yfir þeim – og hvor
tveggja heilsa skáldinu á göngu þess, um leið og þau verða að engu. Hann
hefur þegar eignast hlutdeild í þverstæðu ljóðlistarinnar á tímum vaxandi
iðnaðar. Allar lausnir stórskáldanna sem á eftir fylgja eru jafn loftkenndar
og brothættar og upphaflegar lausnir hans, einnig þar sem hyldýpi virðist á
milli eins og í tilviki Baudelaires, enda þótt Claudel hafi lýst stíl hans sem
blöndu af stíl Racines og blaðamannastíl samtímans. Í iðnaðarsamfélaginu
verður hugmynd ljóðsins um milliliðaleysi sem endurheimtir sjálft sig – svo
fremi hún særi ekki fram rómantíska fortíð rænulaust – sífellt meir að leiftri,
þar sem hið mögulega hefur sig yfir eigin ómöguleika.
Kvæðið eftir Stefan George, sem mig langar nú að segja nokkur orð
um, varð til mun síðar, á öðru skeiði þessarar þróunar. Þetta er eitt fræg-
asta ljóðið úr Der siebente Ring [Sjöunda hringnum], flokki ofurþéttra sköp-
unarverka, sem þrátt fyrir létta hrynjandina eru þrungin inntaki en laus við
allt flúr í anda Jugendstil. Fífldirfska ljóðsins var fyrst slitin frá svívirðilegri
menningaríhaldssemi George-hópsins þegar hið mikla tónskáld Anton von
Webern tónsetti það; hjá George myndast gjá á milli hugmyndafræði og
þjóðfélagslegs inntaks. Ljóðið hljóðar þannig:
Í veðrum vinda
var hugar míns glíma
aðeins draumsýn flá.
Aðeins blíða svipgerð
þú gafst mér þá.
Im windes-weben
War meine frage
Nur träumerei.
Nur lächeln war
Was du gegeben.