Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 209
209
HREIÐUR, SKELJAR, KENNILEITI
Ekkert er til fyrir sínar eigin sakir, heldur vegna samhljóms sem er
meiri en það sjálft og felur það í sér. Listaverk, sem gengur að þessum
skilyrðum og byggir tilverurétt sinn á þeim, hefur Sköpunina í heiðri
og verður þannig hluti af henni.
(Wendell Berry – skáld, bóndi, vistfræðingur – í „Glósur: Ósérhæfð ljóð“)
John Clare var vinnumaður í sveit sem varð vitni að þeim breytingum sem
urðu á landinu í kjölfar lagasetningar breska þingsins um að girða skyldi
eignarjarðir af. Í ljóðum og lausamáli rakti hann sporin og staldraði við
bekkina, vegabrúnirnar, nöfnin, kennileitin, trjálundina og kjarrskógana,
tjarnirnar og lækina sem tilheyrðu glötuðum ökrum og engjum æsku hans.
Clare er meðal næmustu hugsuða í hópi enskra ljóðskálda á því sviði sem
heimspekingurinn Edmund Husserl kallar ,hluta-upplifun‘, Dingerfahrung.
Heimsmynd Clares var heimsmynd hlutanna – steinanna, dýranna, jurtanna,
fólksins – sem hann kynntist fyrst og þekkti best. Þegar hann fór út fyrir
þennan sjóndeildarhring vissi hann ekki lengur hvað hann vissi.
Ljóðlist Clares lýsir leit hans að samastað í tilverunni.
Hola tréð [The Hollow Tree]
Hve oft í skúrum sumars fyrr ég fann
mér fylgsni í hola trénu, þar sem vann
eyðingin sí á eskitrénu stóra:
neðst opin skel, en krónan marglit flóra.
Þar gátu tíu á sokknu gólfi setið
og samt haft pláss og rýmkað hjá sér fletið
og sá sem kaus að lifa einn gat átt
sér athvarf þar með lokum fyrir gátt:
svo keimlíkt húsi að okkar ungu þrár
sér áttu hús, þar logaði eldur blár
er sígaunabálið vermdi villifræin
og velktir fætur struku af sér daginn.
Hve mjög sem rigndi, alla nótt á enda,
tókst aldrei dropa í tréhúsinu að lenda.