Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Síða 210
210
JONATHAN BATE
Ég hef fundið tungumál sem nota má til að bregðast við þessu ljóði í bók sem
kom út árið 1958 og er eftir franska heimspekinginn og vísindasagnfræð-
inginn Gaston Bachelard. Hún ber heitið Skáldskaparfræði rýmisins [Poetics
of Space] og fjallar um verufræði hins skáldlega, eins og Bachelard nefnir
það. Hann hefur áhuga á því hvernig „fjarlæg fortíð endurómar í bergmáli“
snjallrar ljóðmyndar og segir erfitt „að gera sér grein fyrir hve djúpt berg-
málið mun endurvarpast og fjara út“. Að mati Bachelards felst sérstök vera
ljóðmyndarinnar í þeim eiginleika endurómunar að sigrast á tímanum. En við
getum aðeins skilið veru myndarinnar ef við sjálf upplifum endurómunina.
Því kallar Bachelard eftir lestraraðferð sem felst í því að hlusta fremur en
yfirheyra. Hann lítur á sjálfan sig sem ánægðan frekar en strangan lesanda.
„Fyrirbærafræði“ Bachelards varðar sjálft augnablikið þegar ljóðmyndin
kviknar í vitund einstaklingsins. Á því augnabliki skartar „tvíhyggja hugveru
og hlutveru öllum regnbogans litum, er glitrandi og stöðugt að verki í
umsnúningum sínum“. Meðvitundin, sem upplifir hina ljóðrænu mynd,
verður „barnsleg“ í þeim skilningi Schillers að vera einn með veröldinni en
ekki skilinn frá henni á íhugulan hátt. Ljóðmyndin getur veitt beina reynslu
af því að vera einn með heiminum frekar en að þrá, með raunalegum hætti
nostalgíunnar, temps perdu [glataðan tíma] barnæskunnar eða hið frumstæða
líf sem við ímyndum okkur að sé gott.
Í Skáldskaparfræði rýmisins enduróma myndir staðanna sem við elskum:
„Með tilliti til þess verðskulda þessar rannsóknir að vera kallaðar staðar-
ást [topophilia]“. Topophilia er hugtak samsett úr grísku orðunum topos,
„staður“, og philos „elskandi“. Bachelard heldur því fram að okkur þyki
einkum vænt um staðina sem vernda okkur, fyrst þá sem eru innan dyra –
leynileg herbergi, skúffur, kistur, skápa – og síðan hliðstæður þeirra utan
dyra, sérstaklega hreiður og skeljar, athvörf hryggdýra og hryggleysingja.
Bachelard er heillaður af flæði á milli rýma sem eru inni og úti, innri og
ytri vistfræði, eins og „þegar nærvera lofnarblóma hleypir sögu árstíðanna
inn í fataskápinn“. Grundvallarþemað kallar hann vist, sem er hið sama
og ég kalla að dvelja með jörðinni. „Í einni stuttri setningu tengir Victor
Hugo saman myndir og veru vistarinnar. Hann segir að Quasimodo hafi
dómkirkjan verið „egg, hreiður, hús, land og veröld“.
Þó að framsetningin sé rökleg og í óbundnu máli er Skáldskaparfræði
rýmis ljóðræn í sjálfu sér. Bókin virkjar tilfinninguna fyrir því „ljóðræna“
sem hún lýsir. Lesum umfjöllun Bachelards um vistina á bernskuheimilum
okkar og þá læðist manns eigin barnæska inn í minnið, nánast án þess að
eftir því sé tekið. „Heimilið er okkar eigið heimshorn“, segir Bachelard.