Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 212
212
JONATHAN BATE
línunni „Og hangir á litlum kvistum og byrja á nýjan leik“. Það er enginn
lokapunktur og þess vegna getum við lokað hringnum og byrjað aftur að lesa
frá byrjun. Hringlaga ljóðið gerir landslagið hringlaga og fullkomið; vegna
hringformsins virðist ríkja stilla þótt allt sé á hreyfingu.
Fuglar eru ómissandi í hringlaga heimi Clares. Sem dæmi má nefna
bakkasvöluna í samnefndri sonnettu en hún býr sér til hreiður með því að
bora litla hringlaga holu í grjótnámu og hringsólar stöðugt um loftið. Hlustið
á Bachelard fjalla um hringlögun þar sem hann lætur orð fransks, rómantísks
sagnfræðings frá nítjándu öld um náttúruleg form kallast á við umfjöllun
þýsks póstrómantísks ljóðskálds um stað og staðarleysi á tuttugustu öld.
Fyrir Michelet er fugl gegnheil hringlögun, hann er hringlaga líf.
Michelet fangaði eðli fuglsins út frá stöðu hans í alheiminum, sem miðju
lífs sem er varið á allar hliðar, lokað af í lifandi kúlu, og þar af leiðandi á
hápunkti einingar sinnar. Allar aðrar myndir, hvort sem um ræðir form,
lit eða hreyfingu, verða afstæðar í ljósi þess sem við verðum að kalla hinn
algera fugl, veru hringlaga lífs. Þannig skrifaði Rilke, sem mundi eflaust
ekki hvað Michelet hafði ritað um málið:
... Þessi hringlaga fuglasöngur
Hvílist á þeirri stundu sem fæðir hann
Risavaxinn eins og himinninn yfir visnuðum skóginum
Hlutir eiga sér rólega stað í þessum söng
Allt landslagið virðist hvíla í því.
Í huga þess sem er móttækilegur fyrir alheimsgildi mynda er mynd
fuglsins, sem er í raun miðlæg, sú hin sama í ljóði Rilke og í brotinu
eftir Michelet, aðeins tjáð með öðru orðfæri. Hringlaga kall hringlaga
veru gerir himininn hringlaga eins og hvelfingu. Og í þessu hringlaga
landslagi virðist allt vera í hvíld. Hringlaga veran breiðir út hringlögun
sína ásamt ró alls sem er hringlaga.
Og fyrir prófessorinn sem hefur sagt skilið við allar gerðir ‚þarvistar‘
(être-là) er ánægjulegt að heyra hann hefja námskeið í frumspeki með
yfirlýsingunni: Das dasein ist rund. Veran er hringlaga.
Þannig veltir Bachelard fyrir sér Fuglinum [L‘Oiseau] eftir Michelet.
Lokavísunin hér er í heimspekinginn Martin Heidegger sem við munum
koma aftur að í lokakaflanum, ásamt Rilke.