Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 229
229
HREIÐUR, SKELJAR, KENNILEITI
hreiðrinu efst í því. Þegar gamlir menn horfa á ungu drengina sjá þeir sjálfa
sig, eins og þeir eitt sinn voru, og fá fullvissu fyrir sameiginlegri sjálfsmynd
þeirra. Endurminningar í munnlegri geymd móta sögu staðarins sem gerir
þorpið að lífvænlegu vistkerfi sem er í sífelldri þróun en býr yfir nauðsynlegri
samfellu. Hrafnarnir snúa aftur á hverju vori og gera við hreiðrið:
Þar sem þeir búa enn
í sviptingum, vindum, stormum óáreittir.
Og líkust kennileitum þjóðsagnanna
af minningum þorpsins, þarna stendur hún enn:
gamla, stóra’ eikin sem ber uppi hreiður hrafnsins.
En ef hreiðrið – kennileitið – væri eyðilagt, myndi þorpið missa minnið.
Harmljóðið um þetta landsvæði endar með orðunum „nafn mitt mun
fljótt verða allt það / sem er eftir af Swordy Well“. Þetta er satt: Swordy eða
Swaddy Well er nú að hluta til grjótnáma og að hluta sorphaugur, en nafnið
er það sem lifir í prentuðum texta ljóða Johns Clare. Það að nefna stað er að
leyfa staðnum að vera til. Merleau-Ponty skrifar: „Hlutir eru ekki nefndir
eftir að tilvist þeirra hefur verið viðurkennd heldur felst viðurkenningin í
sjálfri nefningunni … Samkvæmt for-vísindalegri hugsun verður hlutur til
eða breytist við það að fá nafn; Guð skapar verur með því að nefna þær og
galdrar hrífa á þær með því að nefna þær.“
Vistrýni endurvekur forvísindalegan galdur þess að nefna hluti. „Enn er
til“, skrifaði Heidegger í Holzwege, eða Skógarstígar, „söngurinn sem nefnir
jörðina“. Póstmódernismi heldur því fram að öll merki séu textamerki; í
vistrýni er því haldið fram að við verðum að ríghalda í þann möguleika að
viss textamerki, kölluð ljóð, geti fengið okkur aftur til að muna þá fornu
visku mannkyns að án kennileita erum við týnd.
Helga Birgisdóttir og Sölvi Björn Sigurðsson þýddu